Erlent

Þrír stjórnarþingmenn ganga til liðs við klofningshópinn

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Skammur tími er til stefnu fyrir May að ná samkomulagi því Bretar eiga að yfirgefa ESB 29. mars.
Skammur tími er til stefnu fyrir May að ná samkomulagi því Bretar eiga að yfirgefa ESB 29. mars. Vísir/EPA
Þrír stjórnarþingmenn breska Íhaldsflokksins hafa sagt sig úr flokknum og gengið til liðs við nýjan hóp þingmanna sem sögðu sig úr Verkamannaflokknum í vikunni. BBC greinir frá.

Anna Soubry, Sarah Wollaston og Heidi Allen tilkynntu Theresu May, leiðtoga flokksins og forsætisráðherra, um ákvörðun þeirra bréfleiðis í dag. Þær segja að stefna flokksins vegna Brexit, útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu vera ástæða þess að þær yfirgefa flokkinn. Þær eru allar hlynntar áframhaldandi veru Bretlands í ESB.

Í bréfinu segja þær að Íhaldsflokkurinn hafi færst of mikið til hægri og gagnrýna þær sérstaklega samstarf flokksins við Lýðræðislega sambandsflokkinn (DUP). Þá hafi flokkurinn verið hertekinn af þeim sem krefjist þess að Bretland yfirgefi ESB.

„Það er óforsvaranlegt að flokkur sem lagði alla áherslu á efnahaginn standi nú fyrir því að ýta okkur á ábyrgðarlausan hátt í átt að engu samkomulagi,“ skrifuðu þremenningarnir.

Munu þær ganga til liðs við Sjálfstæða hópinn, hóp átta þingmanna sem sögðu sig úr Verkamannaflokknum í vikunni, meðal annars vegna ósættis við hvernig flokkurinn hefur tekið á Brexit.

Ellefu þingmenn mynda því hinn nýja hóp sem er þá orðinn fjölmennari en þingflokkur Lýðræðislega sambandsflokksins og jafnstór þingflokki Frjálslyndra demókrata.


Tengdar fréttir

Klofningur Verkamannaflokksins hryggir Corbyn

Sjö breskir þingmenn tilkynntu í gær að þeir hefðu sagt sig úr Verkamannaflokknum og myndu í staðinn sitja á þingi sem bandalag óháðra þingmanna. Í hópnum eru til að mynda fjórir skuggaráðherrar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×