Lífið

Óræð lífvera á hreyfingu

Gunnþórunn Jónsdóttir skrifar
Óttar Sæmundsen og Stephan Stephensen.
Óttar Sæmundsen og Stephan Stephensen.
Tónlistarsmiðirnir Óttar Sæmundsen og Stephan Stephensen, gjarnan þekktur sem President Bongo, leiddu nýverið saman hesta sína og ákváðu að gefa út plötu. Quadrantes hefur nú litið dagsins ljós. Hún kom út í 300 eintökum á vínyl og er einnig að finna inni á Spotify. Lögin á plötunni eru fjögur og endurspegla fjórðungshluta, líkt og nafnið gefur til kynna.

„Við sátum saman á Snaps jólin 2015 og vorum að ræða allt og ekkert ásamt Óla Birni, bróður hans Stebba. Eins og svo oft áður barst talið að tónlist. Ég sagði Stebba frá því að ég væri að skrifa mínímalíska og polýritmíska tónlist, sem er kannski best lýst sem endalausum endurtekningum sem eru þó alltaf að hreyfast og breytast,“ segir Óttar um hvernig samstarf þeirra fæddist.

„Hann varð strax mjög spenntur og ég fór að senda honum alls konar tónlist sem ég hafði samið og nýlegar útgáfur af mínum hugmyndum. Stebbi bjó þá í Berlín þannig að öll okkar sköpun í byrjun fór fram í gegnum netið, þar sem við vorum endalaust að kasta hugmyndum fram og til baka. Mjög snemma í ferlinu fannst okkur við vera með eitthvað spennandi og sérstakt í höndunum. Í lok janúar 2016 ákváðum við svo að gera plötu saman.“

Vísun í stað, hlaðinn tilfinningum

Innblásturinn segir Óttar að komi alls staðar frá og erfitt að benda á eitthvað eitt.

„Fyrir mér er innblástur þetta óræða eitthvað sem þú getur ekki haft orð á. Hann er líka hugmyndafræði og einhver óljós hugmynd um það sem þig langar að framkvæma. Allt hefur áhrif. Mér finnst mjög erfitt að benda á eitthvað eitt og segja að þetta er sú tónlist sem hafði mest áhrif á mig og þess vegna er þetta svona. Sérstaklega á þessari plötu, það eru svo mörg mismunandi áhrif. Ef ég tala fyrir mig þá er ég mikill unnandi áferðar- og pólýritmískar tónlistar þar sem hljóðvefurinn verður mjög þykkur og stundum þannig að rytm­inn er óheyranlegur. Óræð lífvera á hreyfingu sem er alltaf að breyta um form og áferð,“ segir Óttar.

„Þessi plata er innblástur okkar Stebba og allra hinna frábæru listamannanna sem komu að plötunni og gáfu sitt í hana. Mig langar að nýta tækifærið og nefna þetta fólk og þakka því innilega fyrir allt sem það gerði.“ Þau sem lögðu hönd á plóg eru Bjarni Frímann, Daníel Friðrik Böðvarsson, Davíð Þór Jónsson, Ester Bíbí, Haraldur Jónsson, Kurt Uenala, Ólafur Björn Ólafsson, Sigtryggur Baldursson og Viktor Orri.





Óttar Sæmundsen og Stephan Stephensen gáfu nýverið út sköpunarverk sitt Quadrantes.
Eftir fyrsta mánuðinn í samstarfi fékk Stephan hugmynd að fjórðungum og fannst honum tónlist þeirra félaga smellpassa inn í Quadrantes. „Ég tengdi saman flugbrautarnúmerin á Tempelhof við ysta hlusta áttavitans, fjórðungana. Tempelhof er hlaðin tilfinningum og sögu og var áður stærsta bygging heims – síðan byggði Kaninn stærri, auðvitað,“ segir Stephan. „Völlurinn var notaður í hreinsunum seinni heimsstyrjaldarinnar sem og til giftusamlegra björgunarverka. Núna er þetta skemmtigarður fyrir fjölskyldur og útivistarfólk. Það er því mikið af tilfinningum á einum stað, heilt tilfinningafóður Haralds Jónssonar á einum og sama stað, utandyra.“

Niðurstaðan blanda þeirra beggja

Samstarf þeirra félaga gekk vel og varð uppistaðan plata sem þeir segjast afar stoltir af. „Auðvitað er svona sköpunarferli alls konar og það verða árekstrar. Við Stebbi höfum báðir mjög sterkar skoðanir á tónlist og hvernig hlutir eiga að vera. Niðurstaða plötunnar er skoðanaskipti okkar,“ segir Óttar.

Búið er að gera tónlistarmyndband við 2° Quadrante þar sem verk Helga Arnar Péturssonar var fengið að láni og klipptu Eiður og Einar í Snorri Bros myndbandið og framleiddu. „Við erum með þessa hugmynd í maganum að fá Helga til að dansa við hvern fjórðung í hverjum landsfjórðungi. Vonandi verður það að veruleika,“ segir Stebbi að lokum.

Útgáfutónleikar fara fram laugardaginn 23. febrúar á Kaffibarnum kl. 21 og einnig stíga Óttar og Stephan á svið á Sónarhátíðinni í apríl. Með þeim koma fram Daníel Friðrik Böðvarsson og Ester Bíbí.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×