Innlent

Nokkrir ökumenn sprengdu hjólbarða í nýrri holu í Skíðaskálabrekkunni

Birgir Olgeirsson skrifar
Mynd sem var tekin af holunni sem myndaðist í byrjun janúar.
Mynd sem var tekin af holunni sem myndaðist í byrjun janúar. Vísir/Jói K
Nokkrir ökumenn urðu fyrir því óláni að dekk hjólbarða á bílum þeirra sprungu þegar þeir óku ofan í holu sem hafði myndast í Hveradalsbrekkunni á Hellisheiði, en brekkan er af mörgum kölluð Skíðaskálabrekkan.

G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar, staðfestir að nokkrir ökumenn hafi lent í þessu vegna holunnar sem myndaðist í nótt eða morgun. Hann segir starfsmenn Vegagerðarinnar búna að lagfæra þessa holu.

Pétur bendir á að undanfarið hafi veðrið verið með því móti að holur myndast nokkuð auðveldlega á vegum landsins, það er að segja þegar þíða er á landinu eftir kuldatíð. Hann biðlar til vegfarenda að sýna aðgát vegna slíkra aðstæðna.

Vegfarandi sem hafði samband við Vísi í morgun taldi níu bíla þar sem hjólbarðar höfðu sprungið vegna holunnar á veginum um Hveradalsbrekku. Pétur sagðist ekki hafa nákvæmt yfirlit yfir fjölda bíla sem lentu í þessu í morgun.

Vegfarandinn sagði þessa holu hafa myndast nærri þeim stað þar sem önnur hola hafði myndast í byrjun janúar og olli ökumönnum sömu vandamálum.

Ökumennirnir sem lentu í þessu í janúar fóru fram á að Vegagerðin myndi bæta þeim tjónið en Vegagerðin hefur hafnað þeim bótakröfum á þeim grundvelli að hún hafði ekki vitneskju um holuna.

Pétur segir í samtali við Vísi í dag að það sama eigi við þessa holu sem myndaðist á veginum í morgun. Vegagerðin muni ekki fallast á kröfur bíleigenda ef þeir fara fram á að fá tjónið bætt.


Tengdar fréttir

Vegagerðin bætir ekki holutjón

Sextán tilkynningar um tjón hafa borist Vegagerðinni eftir að ökumenn keyrðu í holur á Hellisheiðinni. Vegagerðin mun ekki bæta tjónið þar sem stofnunin vissi ekki af holunum fyrr en eftir á.

Ætlar ekki að una ákvörðun Vegagerðarinnar

Nokkrir ökumenn sem skemmdu bíla sína eftir að hafa ekið í holu á Hellisheiði í byrjun janúar ætla ekki að una ákvörðun Vegagerðarinnar sem ætlar ekki að bæta tjón ökumannanna. Til skoðunar er að höfða dómsmál á hendur Vegagerðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×