Körfubolti

Fór um Jón Arnór þegar Hlynur skoraði fyrstu körfuna í kveðjuleiknum

Anton Ingi Leifsson skrifar
Jón Arnór og Hlynur í leikslok.
Jón Arnór og Hlynur í leikslok. vísir/sigurjón
Hlynur Bæringsson og Jón Arnór Stefánsson léku í kvöld sinn síðasta landsleik fyrir Ísland í körfubolta er þeir léku í stórsigri Íslands á Portúgal í Laugardalshöllinni í kvöld.

Jón Arnór var að kveðja eftir sinn hundraðasta landsleik en Hlynur eftir sinn 125. Þeir voru glaðir er þeir ræddu við blaðamann í sameiningu í kvöld.

„Þetta var mjög gaman. Það var líka gaman að klára þetta með þægilegum sigri,“ sagði Hlynur í leikslok.

„Það hefði ekki verið gaman að fara héðan með tapi,“ bætti Hlynur við áður en Jón Arnór greip orðið og sagði:

„Og við komumst á töfluna!“ sagði goðsögnin létt í bragði. „Hlynur setti fyrstu körfuna og þá hugsaði ég: Úff, hann er hólpinn og ég er eftir,“ grínaðist Jón áfram en Hlynur sagði að þetta hafi hafist að endingu.

„Við náðum báðir að skora og það var gott.“

Jón Arnór var stigahæstur í kvöld og Hlynur frákastahæstur. Þeir brosu til blaðamanns í leikslok eru þeir voru spurðir út í þetta.

„Er þetta ekki bara eins og það á að vera?“ sagði Hlynur brosandi en Jón Arnór segir að tilfinningin hafi verið góð í leikslok.

„Tilfinningin er góð. Núna er það bara að fara koma sér í sturtu og tala við félaganna og þetta er komið gott. Þetta er búið að vera æðisleg og ólýsanlegt,“ sagði Jón Arnór

„Þetta er fyrst og fremst búið að vera skemmtilegt. Mjög gaman,“ bætti Hlynur við.

Strákarnir voru sammála um það að tilfinningin fyrir leik hafi verið furðulegri en eftir leik og það hafi verið margt í undirbúningnum sem hafi verið öðruvísi en áður.

„Fyrir leik, pottþétt. Þetta var mjög skringilegur undirbúningur. Þetta tók mann út úr rútinu. Maður var hingað og þangað að gera einhverja hluti sem maður er ekki vanur. Þetta var skrýtið fyrir leikinn en núna líður mér vel og er glaður,“ sagði Hlynur. Jón var á sama máli:

„Maður braut allar reglur hvað varðar undirbúning. Maður er orðinn ferkantur í undirbúningi og rútínan er heilög þegar maður er að undirbúa sig fyrir leiki.“

„Þetta blessaðist og við náðum sigri sem skipti miklu máli. Og að við kæmust á töfluna. Það var þetta tvennt sem gerði þetta að fullkomnu kvöldi,“ sagði Jón í leikslok.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×