Watford rúllaði Cardiff upp

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Watford er í harðri baráttu um sæti í Evrópudeildinni að ári
Watford er í harðri baráttu um sæti í Evrópudeildinni að ári vísir/getty
Watford valtaði yfir Cardiff í ensku úrvalsdeildinni í kvöld. West Ham vann Fulham á heimavelli.

Aron Einar Gunnarsson sat á varamannabekknum allan tímann og horfði á liðsfélaga sína vera tekna í kennslustund af gestunum. Watford lék á alls oddi og vann 5-1, þetta var í fyrsta skipti í sögunni sem Watford nær að skora fimm mörk í úrvalsdeildinni.

Neil Warnock þyrfti að fara að lesa íslensku miðlana því þar hefur ekki lítið verið rætt hversu mikilvægur Aron Einar er fyrir lið Cardiff. Sú lexía reyndist honum dýrkeypt í kvöld.

Gerard Deulofeu skoraði þrennu fyrir Watford og Troy Deeney gerði tvö marka gestanna sem voru 1-0 yfir í hálfleik. Sol Bamba skoraði sárabótamark fyrir Cardiff seint í seinni hálfleik.

Watford fór upp fyrir Wolves í sjöunda sæti deildarinnar með sigrinum, Úlfarnir eiga þó leik til góða. Cardiff situr eftir í 17. sætinu og á í hættu á að detta niður í fallsæti um helgina.

West Ham og Fulham mættust í Lundúnaslag. Ryan Babel kom gestunum í Fulham yfir strax á þriðju mínútu leiksins en mörk frá Javier Hernandez og Issa Diop tryggðu West Ham forystuna inn í leikhléið.

Í uppbótartíma seinni hálfleiks skoraði Michail Antonio svo þriðja mark West Ham og gulltryggði 3-1 sigur.

Jöfnunarmark Javier Hernandez hefði þó ekki staðið í flestum af stærstu deildum Evrópu þar sem myndbandsupptökur sýndu að hann skallaði boltann ekki í netið heldur fór hann af hendinni á Mexíkóanum.

Enska úrvalsdeildin er þó ekki komin með VAR tæknina enn og því fékk markið að standa.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira