Leik lokið: Akureyri - Fram 26-28 | Mikilvægur sigur Fram

Jón Ágúst Eyjólfsson í Höllinni á Akureyri skrifar
vísir/bára
Það var klár fjögurra stiga leikur þegar Akureyri Handboltafélag tók á móti Fram í Höllinni á Akrureyri fyrr í dag. Fyrir leikinn munaði einu stigi á liðunum, Akureyri með átta stig í 10. sætinu og Fram með sjö stig í 12. og neðsta sæti deildarinnar. Það var ljóst strax í upphitun að Framar voru með höfuðið rétt stillt og klárir í leikinn en einbeitingin skein úr augum leikmanna liðsins.

Það kom á daginn því liðsmenn Fram byrjuðu leikinn mun betur. Akureyringar skoruðu fyrsta markið en síðan ekki söguna meir, í bili alla vega. Framarar náðu í tvígang sjö marka forystu í fyrri hálfleik og þurfti tvö leikhlé og hárblástur frá Geir Sveinssyni, þjálfara Akureyringa, til að vekja þá. Þeir sóttu örlítið í sig veðrið og náðu að laga stöðuna fyrir hálfleikinn en að fyrri hálfleik loknum var staðn 13 – 17, Fram í vil.

Framarar urðu fyrir áfalli þegar Þorsteinn Gauti Hjálmarsson, sem hafði átt prýðisleik fram að þessu, fékk að líta beint rautt spjald fyrir að rífa í öxlina á Leonid Mykhailiutenko, skyttu Akureyringa, í skotinu.

Síðari hálfleikurinn hófst líkt og sá fyrri. Framarar voru skrefinu á undan Akureyri í öllum aðgerðum og eftir aðeins sex mínútna leik var munurinn aftur orðinn sjö mörk. Þá tók Geir leikhlé og litu hans menn aðeins betur út að því loknu. Jafnt og þétt söxuðu þeir á forskot gestanna og þegar mínúta var eftir af leiknum var munurinn eitt mark, 26 – 27. Framarar ráku svo síðasta naglann í kistu Akureyringa þegar fimm sekúndur voru eftir og unnu þar með tveggja marka sigur, 26 – 28.

Afhverju vann Fram?

Þeir voru einfaldlega miklu betur stemmdir í leikinn heldur en heimamenn. Þeir voru hreyfanlegir á báðum endum vallarins og virtust Akureyringar ekki eiga nein svör við aðgerðum Fram.

Hverjir stóðu upp úr?

Hjá gestunum var það hornamaður knái Andri Þór Helgason sem bar af. Hann skoraði mörk í öllum regnbogans litum hvar sem er af vellinum. Fór svo að hann var markahæsti maður vallarins með níu mörk. Viktor Gísli Hallgrímsson átti líka flottan leik í marki gestanna og varði 10 skot.

Hjá heimamönnum var ljósi punkturinn, að mínu mati, Hafþór Már Vignisson en þessi ungi strákur var potturinn og pannan í sóknarleik Akureyrar og tók af skarið þegar þurfti. Hann lauk leik með fimm mörk og var næst markahæstur heimamanna. Markahæstur þeirra var Ihor Kopyshynskyi, með átta mörk.

Hvað er framundan?

Akureyringar halda til Vestmannaeyja og mæta þar ÍBV á fimmtudaginn næsta en Eyjamenn léku þá grátt í fyrri viðureigninni sem fram fór í Höllinni fyrr í vetur.

Framarar eiga hins vegar annan botnbaráttu slag fyrir höndum en þeir mæta Gróttumönnum á Seltjarnarnesinu og sigur þar myndi vega ansi þungt í fallbaráttunni og gefa þeim smá andrými í framhaldinu.

Guðmundur: Stórkostleg tilfinning að sigra

Guðmundur Helgi Pálsson, þjálfari Fram, var að vonum kátur með sigur sinna manna á Akureyri í dag. ,,Stórkostleg tilfinning að sigra, númer eitt, tvö og þrjú var bara að sigra þennan leik og fyrsti sigurinn á útivelli í mjög langan tíma og ég er bara gríðarlega stoltur af drengjunum, þeir stóðu sig frábærlega“ sagði Guðmundur.

Þrátt fyrir að Fram hafi verið yfir allan leikinn sóttu heimamenn hart að gestunum undir lok leiks og viðurkennir Guðmundur að það hafi aðeins farið um hann á bekknum. ,,Við klikkum á nokkrum dauðafærum þarna í restina og ég var orðinn sveittur ég viðurkenni það“ sagði Guðmundur og bætti við að ,,miðað við holninguna á mínu liði þá hafði ég ekkert rosa miklar áhyggjur.

,,Þegar vörnin er góð fáum við góða markvörslu“ sagði Guðmundur aðspurður út í flottan leik markvarða sinna í leiknum. Hann bætti því við að ,,það slaknaði aðeins á henni í seinni hálfleik en hún var frábær í fyrri hálfleiknum.“

Með sigrinum fóru Framarar upp úr fallsætinu og mæta Gróttu mönnum í næstu umferð en þeir eru sem stendur í fallsæti. ,,Þetta eru áfram úrslitaleikir og það er bara ,,all in“, það er ekkert annað í boði en að klára sig bara fyrir hvert einasta verkefni og gefa sig allan í það“ sagði Guðmundur að lokum.

Geir: Fyrstu tuttugu mínúturnar voru hræðilegar

Geir Sveinsson, þjálfari Akureyri Handboltafélag, var að vonum ansi súr eftir tap sinna manna gegn Fram á heimavelli í dag. Geir sagði úrslitin hafa verið gríðarleg vonbrigði, sérstaklega þar sem að um svokallaðan fjögurra stiga leik hafi verið að ræða.

Akureyringar áttu í miklu basli í upphafi beggja hálfleika og sagðist Geir vera að reyna að átta sig á því afhverju Akureyringar mæti svona illa til leiks.

„Þetta er búið að vera viðloðandi allt of oft og þetta er eitthvað sem við þurfum að setjast yfir og vorum að ræða þetta inni í klefa og við getum einfaldlega ekki leyft okkur að mæta svona til leiks“ sagði Geir en hann hélt þrumuræðu í hartnær hálftíma yfir sínum mönnum eftir að leik lauk.

Það var ekki bara í sókninni sem leikmenn Geirs áttu í vandræðum heldur virtist leið Framara oft og tíðum ansi greið upp að marki heimamanna.

„Þetta er ekki bara sóknarleikur sem að þetta snýr að, heldur okkar heildar leikur þessar fyrstu 20 mínútur sem voru einfaldlega hræðilegar og menn bara ekki á svæðinu og því miður var það ekki í fyrsta skiptið.

Eftir leikinn eru Akureyringar komnir niður í fallsæti og eiga erfiðan leik í næstu umferð. Spurður út í framhaldið sagði Geir að menn hafi vitað að þetta yrði brekka en bætti svo við að „þetta er orðin ennþá meiri brekka heldur en var og það er bara gríðarleg vinna framundan.“

Friðrik Svavarsson, línumaður, spilaði ekkert í seinni hálfleiknum en hann fór meiddur af velli í fyrri hálfleik eftir samstuð.

„Ég hef aldrei lent í því að missa eina þrjá til fjóra leikmenn út í sama leiknum og við þurftum því að gera miklar hrókeringar“ sagði Geir og bætti því við að hann gæti ,,verið ánægður með það hvernig menn lögðu sig fram í nýjum stöðum og hvernig menn náðu að vinna sig út úr því en það breytir því ekki að við fengum ekkert út úr leiknum.“

Geir sagðist einfaldlega bara geta vonað það að meiðslin væru minniháttar og bætti svo við „og þó það er ljóst þar sem það er stutt  í næsta leik sem er á fimmtudaginn að hvað nokkra varðar þá lítur þetta illa út.“

Geir vildi ekki horfa á baráttuna og karakterinn sem hans menn sýndu undir lok leiksins þegar þeir náðu að vinna sig inn í hann og eygðu von um að fá eitthvað út úr leiknum.

„Á þeim tímapunkti eru menn að gera það sem þeir eiga að gera í 60 mínútur og ná þá að para sig svolítið og koma sér þangað sem þeir eiga að vera í 60 mínútur“ sagði Geir og bætti við að ,,ef framlagið hefði verið svona allan leikinn þá hugsanlega værum við að tala um einhverja aðra hluti núna en auðvitað veit maður ekki.“

Geir vildi samt ekki taka neitt af leikmönnum Fram.

„Þeir koma hingað norður, komu í gær, virkilega einbeittir á þennan leik í dag og ætluðu sér að ná í tvö stig og gerðu það verðskuldað, við skulum ekkert gleyma því að það er í rauninni niðurstaðan og við verðum að sætta okkur við hana“ sagði Geir Sveinsson að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira