Sport

Íslandsmeistarar innanhúss krýndir í Kaplakrika um helgina

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir er einn besti spretthlaupari Íslands og er ein sú efnilegasta í Evrópu.
Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir er einn besti spretthlaupari Íslands og er ein sú efnilegasta í Evrópu. Mynd/Frjálsíþróttasamband Íslands
Meistaramót Íslands í frjálsum íþróttum innanhúss fer fram um helgina en keppt verður bæði á laugardag og sunnudag í Kaplakrika. Fyrsta grein er 60 metra hlaup klukkan ellefu í fyrramálið.

Fremsta frjálsíþróttafólk landsins verður mætt til leiks í Kaplakrika og mun það keppa um 24 Íslandsmeistaratitla í einstaklingsgreinum. Síðasta grein mótsins verður svo 4×400 metra boðhlaup þar sem spennan er yfirleitt mjög mikil. Alls eru 169 keppendur skráðir til leiks frá 14 félögum.

Frjálsíþróttasamband Íslands hefur tekið saman flotta grein um keppni helgarinnar og má sjá hana hér fyrir neðan.

Spennandi 60 metra hlaup

Í 60 metra hlaupi kvenna eru Hafdís Sigurðardóttir, UFA og Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir, ÍR líklegastar til þess að hreppa Íslandsmeistaratitilinn. Hafdísi er í góðu formi og gæti bætt sinn besta árgangur sem er 7,55 sekúndur. Guðbjörg Jóna hefur bætt sig í 60 metra hlaupi í vetur og á best 7,51 sekúndu. Íslandsmetið er 7,47 sekúndur og á Tiana Ósk Whitworth það frá því í fyrra. Ef Hafdís eða Guðbjörg Jóna hitta á gott hlaup þá gæti það met jafnvel fallið. Íslandsmeistari í fyrra var Dóróthea Jóhannesdóttir, FH og má búast við spennandi baráttu um að komast á pall milli hennar og Andreu Torfadóttur æfingafélaga hennar úr FH.

Í 60 metra hlaupi karla vantar marga sterka hlaupara vegna meiðsla en samt sem áður má búast við skemmtilegu hlaupi. Líklegastur til sigurs eru Juan Ramon Borges, Breiðabliki sem bætti sig í vetur og hljóp á 7,03 sekúndum. Guðmundur Ágúst Thoroddsen, Aftureldingu og Ísak Óli Traustason, UMSS eru einnig líklegir. Ísak Óli hefur bætt sig í vetur og á best 7,10 sekúndur. Besti tími Guðmunds er 7,07 sekúndur frá því í fyrra.

Mótið hefst á riðlakeppni í 60 metra hlaupi kvenna klukkan 11:00 á laugardeginum og í karlaflokki klukkan 11:30. Úrslitin eru svo sama dag klukkan 14:00 í kvennaflokki og 14:10 í karlaflokki.

Nýjir Íslandsmeistarar í stangarstökki

Í stangastökki karla eru þrettán keppendur skráðir til leiks og mjög erfitt er að spá fyrir um sigurvegara. Bestan árangur keppenda á Mark Wesley Johnson, ÍR og er hann sá eini sem hefur stokkið yfir 5 metra. Mark hefur ekki keppt mikið síðustu ár en dró þó skóna fram úr hillunni fyrir Bikarkeppni FRÍ síðasta sumar þar sem hann sigraði með stökk upp á 4,60 metra.

Næstbestan árangur á Guðmundur Karl Úlfarsson, Ármanni. Guðmundur Karl hefur ekki keppt í stangarstökki í vetur en hann á best 4,75 metra frá því 2017. Bogi Eggertsson, FH hefur æft vel í vetur og er í hörku formi. Hann gæti því komið á óvart og náð fram góðri bætingu. Besti árangur hans er 4,40 metrar. Einnig koma Ísak Óli Traustason, UMSS, Andri Fannar Gíslason, KFA, Benjamín Jóhann Johnsen, ÍR, Ari Sigþór Eiríksson, Breiðabliki og Gunnar Eyjólfsson, UFA til greina.

Í stangarstökki kvenna á Bogey Ragnheiður Leósdóttir, FH bestan árangur meðal keppenda. Hún hefur stokkið hæst 3,85 metra. Þar á eftir eru Rakel Ósk Dýrfjörð Björnsdóttir, KFA sem á 3,43 metra og Stella Dögg Eiríksdóttir Blöndal, ÍR sem á 3,40 metra.

Stangarstökk karla hefst klukkan 12:00 á laugardeginum og stangarstökk kvenna klukkan 12:30 á sunnudeginum.

Þrjár yfir 1,7 metrum í hástökki

Þrjár stelpur eiga yfir 1,7 metra í hástökki og búast má við mikilli samkeppni milli þeirra þriggja um Íslandsmeistaratitilinn. María Rún Gunnlaugsdóttir, FH á bestan árangur eða 1,75 metra. Hún stökk þá hæð á Norðurlandamótinu innanhúss fyrir tveim vikum. María varð Íslandsmeistari í fyrra og gæti vel varið þann titill í ár og jafnvel bætt sig enn frekar.

Kristín Lív Svabo Jónsdóttir, ÍR er einnig meðal keppenda en hún hefur ekki keppt í hástökki síðan 2017 vegna meiðsla. Kristín á best 1,70 metra. Einnig er Helga Þóra Sigurjónsdóttir, Fjölni, líkleg til sigurs um helgina. Helga er aðeins 18 ára gömul og því ung og efnileg. Besti árangur hennar er 1,73 metrar.

Í hástökki karla eru tveir strákar sem hafa stökkið yfir 2 metra. Það eru Krisján Viggó Sigfinnsson, Ármanni og Benjamín Jóhann Johnsen, ÍR. Kristján varð Íslandsmeistari í fyrra og á best 2,01 metra. Benjamín á einum sentimeter lægra eða 2,00 metra.

Hástökk kvenna hefst klukkan 12:00 á laugardaginn og hástökk karla klukkan 13:30 á sunnudaginn.

EM fari í langstökki

Ein sterkasta greinin á mótinu í ár er langstökk kvenna. Áhorfendum býðst tækifæri til þess að sjá Hafdísi Sigurðardóttir, UFA keppa um helgina áður en hún fer til Skotlands á EM innanhúss sem fer fram næstu helgi. Íslandsmet Hafdísar er 6,54 metrar og hefur hún tvisvar stokkið 6,49 metra í ár. Hún er í 20. sæti Evrópulistans í langstökki í ár og með góðu stökki gæti hún fært sig upp listann og jafnvel bætt eigið Íslandsmet.

Í langstökki karla á Kristinn Torfason, FH bestan árangur. Kristinn hefur verið ein besti langstökkvari Íslands síðastliðin 10 ár og er margfaldur Íslandsmeistari. Hann hefur stokkið lengst 7,14 metra í ár en á best 7,77 metra. Ísak Óli Traustason, UMSS og Einar Daði Lárusson, ÍR eiga einnig yfir 7 metra og gætu veit Kristin góða samkeppni.

Langstökkið fer fram á sunnudeginum og hefst forkeppninklukkan 10 hjá körlunum og 11 hjá konunum. Úrslitin í karlaflokki fara fram 12:45 og í kvennaflokki 14:10.

Framtíðarstjörnur í 200 metrum og 400 metrum

Í 400 metra hlaupi karla eru FH-ingarnir Kormákur Ari Hafliðason og Hinrik Snær Steinsson líklegastir til sigurs. Þeir hafa báðir bætt sig mikið í vetur en Kormákur á betri tíma. Kormákur keppti í 400m á NM innanhúss fyrir tveim vikum þar sem hann hljóp á sínum besta tíma, 48,55 sekúndum. Hinrik á best 50,05 frá því á RIG fyrr í vetur. Þeir eru því báðir í bætingarformi og gætu bætt sig enn frekar og Hinrik orðið 20. íslenski karlinn frá upphafi til að hlaupa undir 50 sekúndum.

Þeir munu svo báðir einnig keppa í 200 metra hlaupi ásamt Arnaldi Þór Guðmundssyni sem keppir einnig fyrir FH. Þeir þrír skipa sterkasta riðilinn í 200 metra hlaupinu og allir með glænýjar bætingar. Kormákur á 22,23 sekúndur, Hinrik, 22,26 sekúndur og Arnaldur 22,53 sekúndur.

400 metra hlaup karla fer hefst klukkan 14:25 á laugardeginum og 200 metra hlaupið er á sunnudeginum klukkan 12:50.

Sterkasta riðilinn í 400 metra hlaupi kvenna skipa Glódís Edda Þuríðardóttir, KFA, Þórdís Eva Steinsdóttir, FH og Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir, ÍR. Þórdís Eva keppti í 400 metra hlaupi á NM innahúss fyrir tveim vikum og Guðbjörg Jóna í 200 metra hlaupi á sama móti. Þær hafa báðar verið að standa sig mjög vel í vetur og er erfitt að spá fyrir um sigurvegara um helgina. Þórdís Eva á betri tíma eða 54,80 sekúndur en Guðbjörg Jóna 55,04.

Guðbjörg Jóna og Glódís Edda

Þessar þrjár munu einnig mætast á sunnudeginum í 200 metra hlaupi. Þar er Guðbjörg Jóna sigurstranglegust og gæti hún jafnvel ógnað Íslandsmeti Silju Úlfarsdóttur frá árinu 2004 sem er 23,79 sekúndur. Guðbjörg á best 24,05 sekúndur frá því á MÍ 15-22 ára í janúar. Þórdís Eva og Glódís Edda hafa einnig bætt sig í vetur. Þórdís á 24,59 sekúndur og Glódís 25,05 sekúndur. Þær eru allar ungar og efnilegar og á mikilli uppleið og vonandi sjáum við bætingar frá þeim öllum núna um helgina.

400 metra hlaup kvenna hefst klukkan 15:10 á laugardeginum og 200 metra hlaupið er á sunnudeginum klukkan 12:00.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×