Innlent

Lést af völdum snjall-lyfs

Ari Brynjólfsson skrifar
Tianeptine er selt undir vörumerkinu Stablon.
Tianeptine er selt undir vörumerkinu Stablon. Nordicphotos/Getty
Matvælastofnun og Lyfjastofnun vara nú við neyslu á efninu tian­eptine og annarra efna sem seld eru á netinu undir heitinu Nootrop­ics. Talið er að einstaklingur hafi látist hér á landi nýlega eftir að hafa tekið inn tianeptine, efni sem finna má í fæðubótarefnum sem seld eru á netinu. Læknar telja að efnið hafi valdið dauða viðkomandi en ekki er hægt að veita nánari upplýsingar um málið að svo stöddu.

Tianeptine er ekki selt hér á landi en það er selt sem þynglyndislyf í sumum Evrópulöndum, Asíu og Suður-Ameríku undir heitunum Coaxil og Stablon. MAST segir það ekki ljóst hvort viðkomandi hafi flutt efnið inn sem lyf eða keypt það sem fæðubótarefni af netinu. Dæmi eru um að tianeptine hafi verið notað af sprautufíklum í Rússlandi og Bandaríkjunum en þegar því er sprautað í æð er víman sambærileg neyslu ópíóða.

Einföld leit leiðir í ljós að auðvelt er að nálgast efnið á netinu sem fæðubótarefni, en ekki eru gerðar jafn ríkar kröfur til framleiðslu fæðubótarefna og lyfja. Er efnið þá yfirleitt markaðssett sem „snjall-lyf“ og sagt að það örvi minni, sköpunargáfu og einbeitingu. Sagt er að það „opni heilann“ og geti jafnvel gert einstaklinga gáfaðri.

MAST bendir á að engar, eða fáar, rannsóknir styðji staðhæfingar framleiðenda. Vaxandi notkun á Nootropics-efnum valdi áhyggjum því ekki er vitað með vissu hvaða áhrif langtímanotkun þeirra hefur á líkamann og heilastarfsemina.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×