Innlent

Mannréttindadómstóll Evrópu kveður upp dóm í Landsréttarmálinu í mars

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Mannréttindadómstóll Evrópu kveður upp dóm í Landsréttarmálinu um miðjan mars.
Mannréttindadómstóll Evrópu kveður upp dóm í Landsréttarmálinu um miðjan mars. Vísir/EPA

Þann 12. mars næstkomandi ræðst það hvort skipan dómara við hið nýja dómstig, Landsrétt, standist lög og ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu en þá kveður Mannréttindadómstóllinn í Strassburg upp dóm í málinu. RÚV greindi fyrst frá þessu.

Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, lögmaður manns sem dæmdur var í 17 mánaða fangelsi fyrir margvísleg brot, vill að dómur umbjóðanda síns verði ómerktur í ljósi þess að ólöglega hefði verið staðið að skipan Arnfríðar Einarsdóttur, dómara við Landsrétt, og fjögurra annarra. Hann segir að umbjóðandi sinn hafi ekki fengið réttláta málsmeðferð af þessum sökum.

Hæstiréttur Íslands staðfesti dóm Landsréttar í máli mannsins í maí á síðasta ári og staðfesti að Arnfríður hefði ekki verið vanhæf til að dæma í málinu. Vilhjálmur skaut málinu samstundis til Mannréttindadómstólsins en það þykir afar sjaldgæft hversu skjóta málsmeðferð málið hefur fengið en ástæðan fyrir er sögð alvarleg réttaróvissa sem gæti skapast vegna málsins.

Íslenskir dómstólar hafa dæmt þremur umsækjendum um stöðu dómara við hið nýja dómstig miskabætur og þá hefur íslenska ríkið greitt Jóni Höskuldssyni, héraðsdómara, fjórar milljónir króna í skaðabætur.

Arnfríður var ein þeirra fjögurra dómara af fimmtán sem Sigríður Andersen dómsmálaráðherra skipaði við Landsrétt þvert á tillögur hæfisnefndar. Þá var skipan dómara heldur ekki í samræmi við ráðleggingar sérfræðinga innan stjórnsýslunnar.

Skipanin dómara í Landsrétt hefur verið harðlega gagnrýnd og varð meðal annars til þess að Samfylkingin og Píratar lögðu fram vantrauststillögu gegn Sigríði en hún stóð hana af sér.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×