Innlent

Hungurgangan fer fram í dag

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
mynd/sæunn gísladóttir
Hungurgangan fer fram í dag en um er að ræða fyrstu opinberu mótmæli verkalýðsbaráttunnar. Þar verður fátækt mótmælt en hún segir almenning verða að standa saman og krefjast breytinga.

Rúmlega fimm þúsund manns hafa boðað komu sína á Facebook viðburð mótmælanna. Þar kemur fram að því verði mótmælt að fólk í láglaunastörfum fái ekki laun og lífeyri sem dugar til að framfleyta sér. Skipuleggjendur mótmælanna segja það skömm að í einu af ríkustu samfélögum veraldar sé fólk dæmt til fátæktar.

Þuríður Harpa, formaður Öryrkjabandalagsins, mun ávarpa mótmælendur í dag en hún segir gríðarlega mikilvægt að almenningur taki þátt í verkalýðsbaráttunni.

Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ.ÖBÍ
„Okkur hlýtur öllum í þessu landi að vera ofboðið að fólk dragi ekki fram lífið af laununum sínum. Því er mjög mikilvægt að hinn almenni borgari stígi fram og sýni samstöðu þar sem að óréttlæti er bersýnilega við lýði. Það er óréttlæti að fólk geti ekki lifað af launum sínum. Það er óréttlæti að fólk geti ekki lifað af örorkulífeyri sínum og það er óréttlæti að ellilífeyrisþegar geti ekki lifað af sinni framfærslu heldur. Við þurfum að standa saman og mótmæla þessu kröftuglega og breyta þessu. Það verða allir að leggjast á eitt og lagfæra og leiðrétta þessa hluti,“ sagði Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalagsins.

Mótmælin fara fram á Austurvelli í dag og hefjast klukkan 14.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×