Erlent

Manafort sagður forhertur glæpamaður í nýrri greinargerð Muellers

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Paul Manafort, fyrrverandi kosningastjóri Donald Trumps Bandaríkjaforseta.
Paul Manafort, fyrrverandi kosningastjóri Donald Trumps Bandaríkjaforseta. Getty/Andrew Harrer
Paul Manafort, fyrrverandi kosningastjóri Donald Trumps Bandaríkjaforseta, er sagður „forhertur glæpamaður“ sem fór „endurtekið og blygðunarlaust“ á svig við lögin í nýrri greinargerð frá Roberti Mueller, sérstökum saksóknara.

Greinargerðin var send dómara í Washington vegna ákvörðunar refsingar Manaforts fyrir samsæri sem hann var sakfelldur fyrir í september. Í greinargerðinni segir að Manafort eigi skilið viðbótarfangelsisdóm fyrir glæpi sína en hann á þegar yfir höfði sér allt að 24 ára fangelsi fyrir fjársvik í Virginíuríki. Viðbótardómurinn eigi að endurspegla alvarleika glæpanna sem hann hafi framið og er mælt með harðri refsingu.

Í greinargerðinni segir enn fremur að Manafort hafi verið forhertur og fastheldinn í viðleitni sinni til lögbrota. Þá hafi hann ekki sýnt af sér neina iðrun vegna glæpa sinna og sé jafnframt líklegur til að brjóta af sér á ný.

Rannsókn Roberts Muellers hefur nú staðið í tæp tvö ár.Vísir/EPA
Manafort var kosningastjóri Trumps í forsetakosningunum árið 2016 en hann hefur verið í fangelsi síðan í júní. Hann samþykkti í fyrra að veita Mueller upplýsingar í skiptum fyrir vægari dóm. Eftir að rannsókn Mueller á Manafort hófst játaði sá síðarnefndi skattsvik, tilraun til að hafa áhrif á framgang réttvísinnar og að hafa brotið lög við störf hans fyrir önnur ríki en Bandaríkin.

Í nóvember á síðasta ári sakaði Mueller Manafort um að hafa logið að rannsakandum og þar með brotið gegn samkomulagi þeirra. Dómari komst svo að þeirri niðurstöðu fyrr í þessum mánuði að Manafort hefði gerst sekur um lygar. Var þá talið líklegt að sá dómur þýddi að dómur í málunum þar sem hann játaði sök yrði þyngdur.

Gert er ráð fyrir að dómur verði kveðinn upp yfir Manafort í Virginíu þann 8. mars næstkomandi. Þá verður dómsuppkvaðning í máli hans í Washington fimm dögum síðar, 13. mars.


Tengdar fréttir

Manafort sekur um lygar

Paul Manafort, fyrrverandi kosningastjóri Donald Trump, braut samkomulag sem hann gerði við Robert Mueller, sérstakan saksóknara, með því að ljúga að saksóknurum.

Roger Stone meinað að tjá sig eftir meinta ógnun

Roger Stone, ráðgjafi og vinur Donald Trump, forseta Bandaríkjanna til fjölda ára, hefur verið meinað að tjá sig um Robert Mueller, sérstakan rannsakanda Dómsmálaráðuneytis Bandaríkjanna, og Rússarannsóknina svokölluðu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×