Viðskipti innlent

Sammála um aðkomu lífeyrissjóðanna að leigumarkaðnum

Stefán Rafn Sigurbjörnsson skrifar
Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR og María Björk Einarsdóttir framkvæmdastjóri Almenna leigufélagsins.
Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR og María Björk Einarsdóttir framkvæmdastjóri Almenna leigufélagsins. Vísir/Samsett
„Það sem er merkilegt er að þessi stóru og öflugu fasteignafélög eru að borga mun hærri vexti heldur en bjóðast til dæmis á sjóðsfélagalánum lífeyrissjóðanna. Þessi fjármögnunarkjör eru ekki að endurspegla hversu öruggir fjárfestingarkostur þessi félög eru,“ segir María Björk Einarsdóttir, framkvæmdastjóri Almenna leigufélagsins en hún var gestur í Bítinu á Bylgjunni í morgun.

„Við formaður VR vorum í raun sammála um það að stærsta hagsmunamálið fyrir framtíð leigumarkaðar á Íslandi væri að fá lífeyrissjóðina og aðra langtímafjárfesta með öflugum hætti að fjármögnun leigufélaga.“

Tilkynnt var í gær að Almenna leigufélagið ákvað að draga til baka hækkun á leigu skjólstæðinga sinna eftir harða gagnrýni VR. Stéttarfélagið hótaði því að taka 4,2 milljarða króna úr eignastýringu hjá Kviku Banka en bankinn stefnir á að kaupa Gamma sem á Almenna Leigufélagið. Í kjölfarið fundaði forystufólk Almenna leigufélagsins og VR og komust að sameiginlegum áherslum þegar kemur að fjölbreyttum húsnæðiskosti og húsnæðisöryggi.

María Björk segir að Almenna Leigufélagið muni draga til baka þær hækkanir á leigu sem áttu að koma til framkvæmda næstu þrjá mánuðina. „Það erum við að gera til að sýna að okkur er full alvara um að við séum samfélagslega ábyrgt félag.“

María Björk segir þá að félagið ætli að kynna í næsta mánuði hugmyndir um bætur á leigumarkaði og langtímaleigusamninga. 

„Við kynntum fyrir VR okkar hugmyndir að útfærslu sem rímaði svo vel við það sem að VR hefur verið að vinna sín megin.“

Hlusta má á viðtalið við Maríu Björk í spilaranum hér fyrir neðan. Fréttin var uppfærð 12:40.




Tengdar fréttir

Draga fyrirhugaðar hækkanir á leigu til baka

Almenna leigufélagið mun draga til baka fyrirhugaðar hækkanir leigu sem áttu að koma til framkvæmda á næstu mánuðum og mun nú hefja viðræður við VR hvernig tryggja megi betur stöðu leigjenda.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×