Innlent

Reyna að púsla saman at­burða­rásinni við Ölfus­á

Jóhann K. Jóhannsson og Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifa
Leitað er á bátnum á ánni eftir því sem veður leyfir auk þess sem gönguhópar fara með fram bökkum hennar.
Leitað er á bátnum á ánni eftir því sem veður leyfir auk þess sem gönguhópar fara með fram bökkum hennar. vísir/jói k.
Lögreglan reynir nú að púsla því saman hvað gerðist í gærkvöldi þegar bíll fór út í Ölfusá við Selfoss en talið er að einn maður hafi verið um borð í bílnum. Leitað verður á bátum á ánni í dag eftir því sem veður leyfir auk þess sem gönguhópar munu fara með bökkum árinnar.

Sveinn Kristján Rúnarsson, yfirlögregluþjónn, segir að það taki tíma að setja atburðarásina saman og lögreglan hafi óljósar upplýsingar um það sem hafi gerst.

„Þetta er allt á rannsóknarstigi enn þá og við erum að viða að okkur upplýsingum og fá einhverja heildarmynd á þetta,“ sagði Sveinn Kristján í samtali við fréttastofu nú skömmu fyrir hádegi.

Frá vettvangi við Ölfusá í dag þar sem björgunarsveitarmenn vaða ána.vísir/jói k.
Aðspurður hvort að það sé staðfest að bíll hafi farið í ána og að í bílnum hafi verið einn maður segir Sveinn Kristján lögregluna hafa rætt við vitni sem horfði á þetta gerast.

„Það er vitni sem horfir á það, frekar trúverðugt vitni, sem sér þetta. Annað höfum við svo sem ekki. Við erum búin að sjá í nótt hluti úr bíl koma upp við kantinn fyrir neðan kirkjuna sem bendir til þess að eitthvað hafi farið en 100 prósent staðfesting er ekki alveg í sjálfu sér. En mjög miklar líkur, meiri líkur en minni, og við reiknum með að svo sé,“ segir Sveinn Kristján en í gær var greint frá því að lögreglan telji sig vita hver var í bílnum.

Veðurspáin er frekar leiðinleg fram eftir degi og er veðrið mjög slæmt núna að sögn Sveins Kristjáns. Það á hins vegar að lægja með kvöldinu og er þá líklegt að bætt verði í leitina hafi hún ekki þá þegar skilað árangri.


Tengdar fréttir

Dregið úr leit í Ölfusá í nótt

Tæplega 100 björgunarsveitarmenn hafa leitað í kvöld en auk þeirra áhöfn þyrlu Landhelgisgæslunnar, slökkviliðsmenn frá Brunavörnum Árnessýslu og frá sjúkraflutningum Heilbrigðisstofnunar Suðurlands ásamt lögreglumönnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×