Viðskipti innlent

Hagnaður KPMG dróst saman um fimmtung

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
KPMG greiðir 295 milljóna króna arð í ár.
KPMG greiðir 295 milljóna króna arð í ár. Vísir/vilhelm
KPMG hagnaðist um 298 milljónir króna á síðasta rekstrarári ráðgjafar- og endurskoðunarfyrirtækisins, frá október 2017 til september 2018, og dróst hagnaðurinn saman um 81 milljón króna frá fyrra rekstrarári.

Rekstrartekjur fyrirtækisins námu tæplega 5,2 milljörðum króna á síðasta rekstrarári og jukust um 6,3 prósent frá rekstrarárinu 2016 til 2017 þegar þær voru tæpir 4,9 milljarðar króna. Rekstrargjöldin voru liðlega 4,8 milljarðar króna á síðasta rekstrarári og hækkuðu um 408 milljónir króna á milli tímabila.

Var rekstrarhagnaður KPMG þannig ríflega 332 milljónir króna frá október 2017 til september 2018 borið saman við 433 milljónir króna á fyrra rekstrarári.

KPMG átti eignir upp á tæplega 2,1 milljarð króna í lok september í fyrra en á sama tíma var eigið fé fyrirtækisins 549 milljónir króna og eiginfjárhlutfallið því um 27 prósent.

Stjórn fyrirtækisins leggur til að arður upp á 295 milljónir króna verði greiddur til hluthafa í ár vegna síðasta árs en í lok síðasta rekstrarárs voru hluthafar 38 talsins.




Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×