Viðskipti innlent

Héraðssaksóknari hefur lokið rannsókn á skattamálum Sigur Rósar

Birgir Olgeirsson skrifar
Meðlimir hljómsveitarinnar hafa kennt handvömm endurskoðanda um en ekki ásetningi um brot.
Meðlimir hljómsveitarinnar hafa kennt handvömm endurskoðanda um en ekki ásetningi um brot. Vísir/GETTY

Ákærusvið hjá embætti héraðssaksóknara hefur lokið rannsókn sinni á skattamálum meðlima íslensku hljómsveitarinnar Sigur Rósar. Héraðssaksóknari segir í samtali við Vísi að ekki sé hægt að gefa upp að svo stöddu hvort ákært verður í málinu, en niðurstaðan muni liggja fyrir fljótlega.



Fyrst var greint frá því að embættið hefði lokið rannsókninni á vef Ríkisútvarpsins. Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari segir málið hafa borist frá skattrannsóknastjóra í mars í fyrra.



Málið rataði fyrst í fjölmiðla í mars í fyrra þegar fregnir bárust af því að sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu hefði kyrrsett eignir meðlima Sigur Rósar, þeirra Jóns Þórs Birgissonar, Georgs Hólm og Orra Páls Dýrasonar, að kröfu tollstjóra. Varðaði kyrrsetningin eigur þeirra sem metnar voru á tæpar 800 milljónir króna en ástæðan var sögð rannsókn skattrannsóknastjóra á meintum skattalagabrotum. Stærsti hlutinn var í eigu Jóns Þórs, eða 638 milljónir króna.



Sama dag barst yfirlýsing frá hljómsveitinni þar sem kom fram að málið varðaði skil á framtali meðlima Sigur Rósar og að ekki hefði verið staðið rétt að því á árunum 2010 til 2014. Kom fram í yfirlýsingunni að ekki væri ágreiningur um það og að þessi rannsókn hefði komið þeim í opna skjöldu því þeir töldu að rétt hefði verið staðið að skattskilum og framtalsgerð af hálfu sérfræðings sem hljómsveitin hafði ráðið til að sjá um þau mál.



Ýmislegt hefur gengið hjá hljómsveitinni undanfarin ár. Þar á meðal hefur Harpa ohf., sem rekur tónlistar- og ráðstefnuhúsið Hörpu, stefnt tónleikahaldaranum Kára Sturlusyni og félagi hans, KS Productions slf., til að endurheimta 35 milljónir króna af miðasölutekjum sem Kári fékk fyrirframgreiddar vegna tónleika Sigur Rósar í Hörpu í desember árið 2017.



Þá hætti Orri Páll Dýrason í Sigur Rós í október í fyrra eftir að hafa verið sakaður af bandarískri listakonu um kynferðisbrot.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×