Umfjöllun og viðtöl: ÍBV - Akureyri 31-27 │ Eyjamenn stigi frá fimmta sætinu

Einar Kárason skrifar
vísir/bára
Það var heilmikið í húfi þegar ÍBV tók á móti Akureyri í Vestmannaeyjum í kvöld. Eyjamenn eru í baráttu um miðja deild en gestirnir berjast fyrir sæti sínu í deildinni.

Leikurinn fór fjöruglega af stað og gaf það tóninn strax á fyrstu mínútu leiksins þegar fyrsta brottvísun leiksins átti sér stað. Spilað var af krafti og þurfti dómaraparið heldur betur að vinna fyrir kaupi sínu.

Liðin skiptu mörkunum bróðulega á sig en munurinn varð aldrei meiri en 2 mörk allan fyrri hálfleikinn. Þegar hálfleiksbjallan lét í sér heyra leiddu gestirnir með einu marki, 13-14.

Eyjamenn nýttu hálfleikinn greinilega vel og skerptu á sínum leik en upphaf síðari hálfleiks átti stórann þátt í viðsnúningi á leiknum. Þeir skoruðu fyrstu 4 mörk hálfleiksins og virtust til alls líklegir.

Þá vaknaði lið Akureyris og þeir sóttu á lið ÍBV eins og þeir gátu en heimamenn svöruðu öllu og héldu forustu nánast þar til loka leiks. Lokatölur leiksins voru 31-27 en Eyjamenn spiluðu leikinn af mikilli yfirvegun og héldu góðum aga, þá sér í lagi síðustu mínútur leiksins.

Af hverju vann ÍBV?

Þetta Eyjalið er gífurlega sterkt þegar það nær að spila sinn leik. Reynslumiklir leikmenn í flestum stöðum sem hafa unnið allt. Lið Akureyringa er kröftugt og vel spilandi en þeir eru í leiðindastöðu í deild og hvert stig skiptir máli.

Hvað gekk illa?

Leikmenn Akureyris fóru oft í skammarkrókinn, alls 8 sinnum, helmingi oftar en heimamenn. Þá var Björn Viðar Björnsson í marki ÍBV með 14 skot varin en markmenn gestanna með 8 skot samtals.

Hverjir stóðu uppúr?

Hjá ÍBV skoraði Hákon Daði Styrmisson 12 mörk úr 13 skotum, þar af 6 víti. Næstur var það Kristján Örn Kristjánsson með 5. Björn stóð vaktina vel í markinu.

Hjá Akureyri skoraði Hafþór Vignisson 7 mörk úr 9 skotum og Leonid Mykhailiutenko gerði 6.

Hvað gerist næst?

Eyjamenn skella sér í Origo höllina og etja kappi við Valsara næstkomandi mánudag en Akureyringar fá Gróttu í heimsókn á sunnudaginn.

Erlingur: Baráttusigur

Erlingur Richardsson, þjálfari ÍBV, var sáttur með leik sinna manna í kvöld.

„Baráttusigur. Þessir menn börðust frá fyrstu mínutu til þeirra síðustu. Sóknarleikurinn heilt yfir mjög góður. Við erum að spila á móti liði sem er að berjast fyrir lífi sínu í deildinni og það er alltaf erfitt. Þess vegna erum við mjög ánægðir með frammistöðu drengjanna.”

„Þó við höfum verið undir í hálfleik var þetta jafn leikur. Ekki nema eitt mark. Varnarleikurinn hjá okkur var mjög góður. Við vorum að fiska bolta líka hérna í seinni hálfleiknum og það fór aðeins að draga á þá. Þannig að við náum ódýrum hraðaupphlaupum.”

„Ég er ánægður með að við skildum halda haus í fyrri hálfleik. Við höfum verið undir í nokkrum leikjum. Ekki bara einu marki heldur 5-6 þannig að einu marki undir var bara jákvætt miðað við síðustu leiki.”

„Ég get ekki verið ósáttur með 31 mark skorað og frábæran baráttuanda í liðinu,” sagði Erlingur að lokum.

Geir: Ætlum að tryggja okkur sætið

„Ég veit nú ekki hvort 4 mörk séu stórt tap en 4 mörk eru að engu síðu 4 mörk,” sagði Geir Sveinsson, þjálfari Akureyringa, eftir leik.

„Í ljósi þess hvernig leikurinn þróaðist hefði mér fundist sanngjarnara að þetta hefðu kannski verið 1-2 mörk sem hefði munað. Svo ég tali nú ekki um að ná stigi sem var ætlunin en bara því miður datt botninn aðeins úr þessu í restina og við förum stigalausir héðan.”

„Það er auðvitað heilmargt jákvætt að taka sem við getum notað upp á framhaldið að gera. Við verðum þó kannski fyrir dálitlum skakkaföllum en við missum 2-3 leikmenn út vegna meiðsla og vonandi að það sé ekki alvarlegt upp á næsta leik að gera en það var margt jákvætt sem við munum halda áfram að vinna með.”

„Ég ætla ekkert að fara að draga neitt sérstaklega til (sem ég er ósáttur með). Ég er bara ekki sáttur með að fá ekkert stig og við þurfum bara að halda áfram okkar vinnu. Við skoðum þetta í rólegheitunum saman og vinnum svo með það.”

„Ég er bjartsýnn (á framhaldið. Við ætlum að tryggja okkur sætið. Það er nóg af stigum í boði til þess en við verðum bara að halda vinnunni áfram. Þetta er ekki búið fyrr en það er búið,” sagði Geir.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira