Erlent

Þúsundir yfirgefa heimili sín vegna skógarelda

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Eldarnir hafa valdið því að þúsundir hafa þurft að yfirgefa heimili sín.
Eldarnir hafa valdið því að þúsundir hafa þurft að yfirgefa heimili sín. AP
Á fjórða þúsund manns hafa flúið heimili sín vegna skógarelda sem loga nú á Suðurey, annarri af tveimur aðaleyjum Nýja-Sjálands. Eldarnir áttu upptök sín nálægt borginni Nelson fyrir sex dögum, en hafa nú teygt anga sína um 35 kílómetra norðaustur að bænum Wakefield.

Veðurspár gera ráð fyrir sterkum vindum á svæðinu í dag og hafa yfirvöld varað við því að umfang eldsins geti aukist gríðarlega í dag vegna þess.

Um 70 þúsund manns búa á svæðinu sem talið er að eldurinn geti haft áhrif á og nokkurrar taugaspennu gætir meðal íbúa, að því er fram kemur í frétt BBC.

Viðbragðsaðilar hafa notast við 23 þyrlur og tvær flugvélar í tilraunum sínum til að ráða niðurlögum eldsins, sem af sérfræðingum er talinn versti skógareldur Nýja-Sjálands í meira en 60 ár.

Þá virðist veðrið ekki ætla að vera með eldhræddum Nýsjálendingum í liði en þrátt fyrir rigningarspá snemma í næstu viku mun úrkoman að öllum líkindum ekki ná til svæðisins þar sem eldarnir loga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×