Enski boltinn

Scholes kynntur sem stjóri Oldham í dag

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Þjálfaraferill Paul Scholes virðist vera að hefjast af alvöru
Þjálfaraferill Paul Scholes virðist vera að hefjast af alvöru vísir/getty
Paul Scholes verður kynntur sem nýr knattspyrnustjóri D-deildar liðsins Oldham í dag samkvæmt heimildum Sky Sports.

Hinn 44 ára Paul Scholes er að landa sínu fyrsta aðalþjálfarastarfi, hann var bráðabirgðastjóri Salford City ásamt Phil Neville í einum leik árið 2015 en þeir félagar, ásamt Ryan Giggs, Gary Neville, Nicky Butt og David Beckham eru allir hluteigendur í Salford City.

Oldham Athletic er í 14. sæti í D-deildinni og situr þægilega í miðju deildarinnar, um tuttugu stigum frá bæði toppnum og botninum.

Samkvæmt heimildum Sky verður Scholes kynntur til leiks á blaðamannafundi eftir hádegi en hann mun hefja störf strax í dag.

Það var ekki bara viðræður á milli Scholes og Oldham sem réðu því hvort hann fengi starfið því stjórn deildarsamtakanna á Englandi fundaði um það hvort hagsmunaárekstrar gætu orðið vegna 10 prósenta hlut Scholes í Salford City.

Salford er neðrideildarlið, en spilar í efstu deild neðrideildanna og er að berjast um að fara upp í D-deildina.

Sky segir stjórnina hafa sett þær hömlur á Scholes að hann má ekki gera leikmannaviðskipti við Salford, það er hvorki kaupa leikmenn til Oldham frá Salford né selja til liðsins.

Scholes gerði garðinn frægann með Manchester United fyrir ekki svo löngu, á 11 Englandsmeistaratitla frá árum sínum á Old Trafford, tvo Meistaradeildartitla og þrjá bikarmeistaratitla. Hann var í þjálfaraliði United um stutt skeið eftir að hann hætti að spila.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×