Erlent

Tyrkneska ríkið selur grænmeti til að vinna gegn verðbólgu

Kjartan Kjartansson skrifar
Verð á matvælum hefur hækkað verulega í Tyrklandi. Stjórnvöld segjast berjast gegn verðbólgu með því að opna ríkismarkaði með grænmeti.
Verð á matvælum hefur hækkað verulega í Tyrklandi. Stjórnvöld segjast berjast gegn verðbólgu með því að opna ríkismarkaði með grænmeti. Vísir/EPA
Tuga prósenta verðbólga í matvöruverði varð til þess að tyrknesk stjórnvöld hafa opnað opinbera matarmarkaði þar sem grænmeti er selt beint til neytenda. Yfirvöld saka matvöruverslanir um að keyra upp verðið.

Matvöruverð í Tyrklandi hækkaði um 31% í janúar miðað við sama mánuð í fyrra, að sögn Reuters-fréttastofunnar. Orsökin er meðal annars rakin til slæmrar tíðar í landbúnaðarhéruðum í suðurhluta landsins og vaxandi launa- og flutningskostnaðar.

Stjórnvöld hafa tekið verðhækkununum af hörku og hóta því að refsa þeim sem hækka verð að óþörfu. Ákveðið var að opna ríkismarkaði með grænmeti í Istanbúl og Ankara nýlega en ríkisstjórnarflokkur Recep Erdogan forseta stendur frammi fyrir sveitarstjórnarkosningum í næsta mánuði.

„Þetta var leikur. Þeir byrjuðu að eiga við verðið, þeir reyndu að láta verðið rjúka upp úr öllu valdi. Þetta var tilraun til að valda ógn,“ fullyrti Erdogan í framboðsræðu í dag.

Verðið á mörkuðunum er um 50% af almennu verðlagi. Þriggja kílóa hámark er á því hvað fólk getur keypt þar. Erdogan segir að bráðum verði hrísgrjón, linsubaunir og hreingerningarvörur seldar á þessum ríkismörkuðum.

Ólíklegt er sagt að markaðirnir hafi mikil áhrif á verðbólgu í landinu þar sem þeir eru bundnir við tvær stærstu borgir landsins. Þeir gætu þó lækkað verð fyrir borgarbúa í aðdraganda kosninganna. Sumir verslunarmenn þar kvarta undan því að þeir geti ekki keppt við ríkismarkaðina sem þeir segja að séu niðurgreiddir af skattgreiðendum til þess að kaupa flokki Erdogan atkvæði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×