Skoðun

Hvað kosta vegirnir?

Þórólfur Matthíasson skrifar
Samkvæmt fjárlagafrumvarpi var ætlunin að eyða tæpum 10 milljörðum króna í nýframkvæmdir á árinu 2019 og tæpum 6 milljörðum í viðhald. Þá vantar inn vetrarþjónustu, framlög til jarðganga(!) og fleira. Vegagerðin telur sig hafa haft um 29 milljarða til ýmissa vegatengdra verkefna á árinu 2018. Þar af komu 4 milljarðar úr „almennum varasjóði“ ríkissjóðs á miðju ári.

Fram til ársins 2016 var lögbundið að tekjur af sérstöku bensíngjaldi, olíugjaldi og þungaskatti skyldi renna til vegagerðar. Þessir „mörkuðu“ tekjustofnar munu væntanlega skila 16,5 milljörðum króna á árinu 2019. Sem er heldur lægri upphæð en áætlað er að verja til nýframkvæmda og viðhalds. Séu allar tekjur ríkissjóðs af ökutækjum og kolefniseldsneyti dregnar saman eru þær 38,9 milljarðar króna. Þar af eru kolefnisgjöld um 3,4 milljarðar króna

Í grein í Fréttablaðinu þann 15. janúar sl. upplýsir samgönguráðherra að 70% af umferðartengdum gjöldum renni til vegakerfisins sjálfs en 30% til að standa undir umferðartengdum útgjöldum hins opinbera á öðrum sviðum eins og heilbrigðissviði og löggæslusviði. Ekki er ljóst hvað samgönguráðherra telur til tekna af umferðinni. Ef kolefnisgjöldum er haldið utan við samtölur gæti sú upphæð verið 35-36 milljarðar króna. 70% af þeirri upphæð er 24,5-25 milljarðar króna sem er ívið hærri upphæð en vegagerðin gefur upp sem nýframkvæmda- og viðhaldsfé, en talsvert lægri upphæð en gefin er upp sem heildarfjárveiting til vegaframkvæmda.

Nú er rætt um að gjörbylta fjáröflun vegna vegagerðar, vegaviðhalds og öllu öðru er að veghaldi lýtur. Sýnist þar sitt hverjum. En væri ekki ráð, áður en sú umræða er teygð lengra, að birta almenningi góðar talnalegar upplýsingar um tekjur og gjöld ríkissjóðs vegna vegakerfisins eins og það er þannig að fólk úti í bæ geti öðlast hugarró við það að reikna sig fram til sömu niðurstöðu og samgönguráðherrann gerir þegar hann metur hversu stór hluti umferðartekna renni til vegakerfisins sjálfs?




Skoðun

Sjá meira


×