Scholes: Veit að Mourinho mun fylgjast vel með mér

Man. Utd-goðsögnin Paul Scholes var ekki í miklu uppáhaldi hjá þjálfaranum Jose Mourinho er hann stýrði Man. Utd. Scholes var enda duglegur að gagnrýna hann.
Scholes tók í gær við uppeldisfélagi sínu, Oldham, eftir að hafa setið í sérfræðingastól í sjónvarpi síðustu misseri.
Scholes gerir sér fyllilega grein fyrir því að hann muni fá pillur eftir að hafa gagnrýnt menn í bak og fyrir. Hann veit líka að Mourinho mun líklega skjóta á hann ef illa gengur.
„Ég held að hann muni klárlega fylgjast vel með úrslitunum hjá mér. Ég er nú ekki viss um að hann mæti samt á leiki hjá okkur,“ sagði Scholes sem skilur ekki stjóra sem taka gagnrýni sérfræðinga í sjónvarpi alvarlega.
„Ég hef alltaf furðað mig á því að leikmenn og þjálfarar taki þessa gagnrýni inn á sig. Þeir eru í sjónvarpinu til þess að segja álit sitt á leiknum og fá borgað fyrir það. Ef einhver lætur mig heyra það þá mun það ekki trufla neitt. Eini maðurinn sem ég þarf að svara er eigandi félagsins.“