Handbolti

Jafntefli í háspennuleik á Hlíðarenda

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Kristín Guðmundsdóttir átti stórleik í liði Stjörnunnar
Kristín Guðmundsdóttir átti stórleik í liði Stjörnunnar vísir/vilhelm
Stjarnan tók stig af toppliði Vals í Olísdeild kvenna þegar liðin mættust í Origohöllinni að Hlíðarenda í kvöld. Haukar unnu öruggan sigur á Selfossi.

Leikurinn á Hlíðarenda var spennandi allt frá upphafi. Stjarnan náði yfirhöndinni í fyrri hálfleik en munurinn á liðunum varð þó aldrei meiri en tvö mörk fyrr en á 24. mínútu þegar Þórey Anna Ásgeirsdóttir kom Stjörnunni í 6-9.

Þá tók Valur áhlaup og náði að jafna metin áður en liðin gengu til búningsherbergja, staðan 9-9 í hálfleik. Valur skoraði fyrstu tvö mörk seinni hálfleiks og tók forystuna.

Valskonur héldu yfirhöndinni þrátt fyrir að leikurinn væri áfram í járnum. Gestirnir úr Garðabæ eltu allan seinni hálfleikinn þar til á 59. mínútu þegar Kristín Guðmundsdóttir kom þeim yfir í 23-22. Íris Ásta Pétursdóttir náði að jafna á loka metrunum, lokatölur 23-23 og liðin skiptu með sér stigunum í háspennu leik.

Kristín Guðmundsdóttir átti stórleik fyrir Stjörnuna með 10 mörk, hjá Val var Sandra Erlingsdóttir atkvæðamest með 5.

Í Hafnarfirði höfðu Haukar betur gegn Selfossi 27-20.

Heimakonur í Haukum tóku strax forystuna og héldu henni þar til um miðjan fyrri hálfleik þegar Selfyssingar jöfnuðu og Perla Ruth Albertsdóttir kom þeim svo yfir 7-8.

Haukar tóku áhlaup undir lok hálfleiksins og skoruðu fimm mörk í röð, staðan í hálfleik var 15-11 fyrir Hauka.

Selfyssingar skoruðu bara eitt mark á fyrstu átta mínútum seinni hálfleiks og þar með var í raun út um leikinn, Haukar voru komnir með átta marka forskot sem þær létu ekki af hendi.

Þegar upp var staðið var sigurinn mjög öruggur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×