Innlent

Aldís kærir Hörð Jóhannesson lögreglumann

Jakob Bjarnar skrifar
Aldís Schram hefur nú kært Hörð Jóhannesson fyrir vottorð sem hann veitti Jóni Baldvin þess efnis að foreldrar Aldísar hafi aldrei kallað til lögreglu hennar vegna.
Aldís Schram hefur nú kært Hörð Jóhannesson fyrir vottorð sem hann veitti Jóni Baldvin þess efnis að foreldrar Aldísar hafi aldrei kallað til lögreglu hennar vegna.

Aldís Schram, sem staðið hefur í harðvítugum deilum við Jón Baldvin Hannibalsson föður sinn, hefur nú sent héraðssaksóknara erindi þar sem hún kærir Hörð Jóhannesson lögreglumann vegna mögulegra brota hans á ýmsum ákvæðum almennra hegningar- og lögreglulaga. Aldís telur Hörð hafa brotið þagnarskyldu sína.



Kæra hennar tengist vottorði sem Jón Baldvin hefur haldið á lofti, sem hann fékk undirritað frá lögreglu þess efnis að þau hjónin, hann og Bryndís Schram, hafi aldrei kallað á lögreglu eða beðið lögreglu um aðstoð af neinu tagi hennar vegna. Það vottorð er undirritað af Herði.

Aldís birti mynd af bréfi sínu til Héraðssaksóknara nú í morgun.

Aldís birtir kæru sína á Facebook-síðu sinni nú í morgun. Fyrr í morgun kynntu þau Jón Baldvin og Bryndís í grein sem þau birtu í Morgunblaðinu að þau ætluðu að kæra Helga Seljan og Sigmar Guðmundsson starfsmenn RÚV vegna umfjöllunar þeirra um deilur þeirra á Rás 2, ef þeir drægju ekki verulega í land með hana.

Kæra Aldísar

Bréf Aldísar til Héraðssaksóknara er á þessa leið:



Kæra á hendur Herði Jóhannessyni



Góðan dag



Erindi mitt varðar ætlað brot Harðar Jóhannessonar lögreglumanns á þagnarskyldu sinni sem lögreglumanns sem og möguleg brot hans á öðrum ákvæðum almennra hegningarlaga í því samhengi.



Tilefnið eru blaðaskrif og fjölmiðlaframkoma Jóns Baldvins Hannibalssonar þar sem hann heldur því fram að hann hafi vottorð frá umræddum Herði Jóhannessyni undir höndum um afskipti lögreglu af undirritaðri og aðkomu Jóns Baldvins og konu hans Bryndísar Schram af því.



Með bréfi þessu vil ég leggja fram kæru á hendur Herði, fyrir að hafa gefið út slíkt vottorð.



Má ætla að vottorð af því tagi sem Jón Baldvin lýsir í fjölmiðlum brjóti í bága við þagnarskyldákvæði lögreglulaga 1. mgr. 22. gr. lögreglulaga og 1. mgr. 136. gr. almennra hegningarlaga.



Sömuleiðis telur undirrituð ástæðu til þess að rannsaka hvort Hörður Jóhannesson hafi gefið út vottorð af þessu tagi í ávinningsskyni, sem þá gæti einnig varðað við 1. mgr. 128 gr. almennra hegningarlaga.



Máli mínu til stuðnings vísa ég í grein eftir Jón Baldvin Hannibalsson, sem birt var 7. febrúar sl. í Morgunblaðinu, svohljóðandi:



„Lögreglan hefur nokkrum sinnum á undanförnum árum haft afskipti af Aldísi Baldvinsdóttur (kt. 210159-4449) eða sinnt verkefnum vegna hennar. Að gefnu tilefni skal tekið fram, að foreldrar hennar, Bryndís Schram og Jón Baldvin Hannibalsson, hafa aldrei kallað á lögreglu eða beðið lögreglu um aðstoð af neinu tagi hennar vegna. Þetta staðfestist hér með.“ (Undirskrift: Hörður Jóhannesson aðstoðarlögreglustjóri.)“



Sömuleiðis vísa ég til viðtals við Jón Baldvin Hannibalsson í þjóðmálaþættinum Silfrinu 3. febrúar sl., þar sem hann vísar í umrætt vottorð máli sínu til stuðnings.



Aldís Schram.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×