Erlent

Fyrrverandi njósnari sögð hafa svikið Bandaríkin

Samúel Karl Ólason skrifar
Monica Elfriede Witt hefur verið ákærð fyrir að leka leynilegum upplýsingum og svíkja samstarfsmenn sína með því að leka persónuupplýsingum um þá til Íran.
Monica Elfriede Witt hefur verið ákærð fyrir að leka leynilegum upplýsingum og svíkja samstarfsmenn sína með því að leka persónuupplýsingum um þá til Íran. AP/FBI
Yfirvöld Bandaríkjanna segja fyrrverandi starfsmann leyniþjónustu flughers Bandaríkjanna hafa veitt Írönum leynilegar upplýsingar og leynilegt verkefni Bandaríkjanna og flúið til Íran. Monica Elfriede Witt hefur verið ákærð fyrir að leka leynilegum upplýsingum og svíkja samstarfsmenn sína með því að leka persónuupplýsingum um þá til Íran. Hakkarar, sem einnig hafa verið ákærðir, notuðu þær upplýsingar til að ráðast gegn þeim aðilum.

Witt er sögð hafa flúið til Íran árið 2013 en hún var ekki ákærð fyrr en í dag. Talið er að hún sé enn í Íran.

Samkvæmt AP fréttaveitunni fylgdust rannsakendur Alríkislögreglu Bandaríkjanna, FBI, með Witt eftir að hún fór á ráðstefnu í Íran árið 2012 og birtist í áróðursmyndbandi gegn Bandaríkjunum. Henni barst viðvörun um að leyniþjónusta Íran myndi reyna að snúa henni gegn Bandaríkjunum og hét hún því að leka ekki upplýsingum um störf sín ef hún færi aftur til Íran og var hún ekki handtekin.



Ekki liggur fyrir hvaða upplýsingar hún veitti Írönum en aðstoðarforstjóri FBI segir þær geta ógnað öryggi Bandaríkjanna. AP hefur eftir honum að Witt hafi ítrekað leitað leiða til að grafa undan Bandaríkjunum og styðja ríkisstjórn Íran.

Witt starfaði hjá leyniþjónustu flughersins frá 1997 til 2008 og starfaði meðal annars víða í Mið-Austurlöndum og hafði aðgang að leynilegum upplýsingum eins og nöfnum uppljóstrara Bandaríkjanna í Mið-Austurlöndum. Eftir 2008 og fram til 2013 starfaði hún sem verktaki hjá Varnaramálaráðuneyti Bandaríkjanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×