Körfubolti

Wade og Nowitzki grófu stríðsöxina eftir síðasta dansinn

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Hér má sjá Dirk og Dwyane saman á gólfinu í síðasta sinn.
Hér má sjá Dirk og Dwyane saman á gólfinu í síðasta sinn. vísir/getty
Það hefur lengi verið stirt á milli körfuboltakappanna Dwyane Wade og Dirk Nowitzki en þeir föðmuðu hvorn annan og skiptust á treyjum eftir að hafa mæst í síðasta skipti á ferlinum í gær.

Kuldann á milli þeirra má rekja til úrslitanna í NBA-deildinni árið 2006 er lið þeirra, Miami Heat og Dallas Mavericks, mættust.

Miami hafði þá betur og leikmenn Dallas sögðu að dómgæslan hefði fært þeim titilinn. Leikmenn Miami svöruðu að Dallas hefði unnið ef Nowitzki hefði verið alvöru leiðtogi. Það féllu þung orð á þessum tíma sem ekki hafa gleymst. Dallas svaraði fyrir sig fimm árum síðar er liðið hafði betur gegn Miami í úrslitunum.





Þeir hafa aftur á móti mikið fullorðnast síðan þá og eru orðnir meyrir og mjúkir á lokaskrefum sínum í deildinni.

„Ég kann að meta þetta, maður. Þetta er heiður og takk fyrir allt sem þú hefur gert fyrir mig á ferlinum,“ sagði Wade við Nowitzki er þeir föðmuðust eftir leik.

„Þetta eru ein bestu treyjuskipti ársins. Dirk er á leiðinni í heiðurshöllina og ég hef lært að dá hann og bera virðingu fyrir honum. Ég er þakklátur að hann skildi ekki hafna bón minni og faðmlagi eftir leik. Mér þykir mjög vænt um það.“

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×