Erlent

Á fjórða tug hermanna féll í sjálfsmorðsárás í Kasmír

Kjartan Kjartansson skrifar
Fórnarlömb árásarinnar voru félagar í vopnaðri sveit sem styður indverska herinn.
Fórnarlömb árásarinnar voru félagar í vopnaðri sveit sem styður indverska herinn. Vísir/EPA
Sjálfsmorðssprengjuárás felldi að minnsta kosti 34 félaga í indverskri vopnaðri sveit í Kasmírhéraði í dag. Árásin er sú mannskæðasta þar í fleiri ár.

Bíl fullum af sprengiefni var ekið inn í rútu sem var á leið með sveitina til borgarinnar Srinagar, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC. Lögreglufulltrúi segir að 44 hafi verið um borð í rútunni og að nokkrir séu þungt haldnir. Pakistanskur hópur íslamista hefur lýst yfir ábyrgð á ódæðinu.

Indverjar og Pakistanar deila um yfirráð í Kasmírhéraði en árásin átti sér stað í indverska hluta héraðsins. Narendra Modi, forsætisráðherra Indlands, fordæmdi árásina sem hann kallaði „fyrirlitlega“.

Mannskæðasta árásin á indverskt herlið til þessa átti sér stað árið 2002 þegar vígamenn drápu 31 í herstöð í Kaluchak. Flestir þeirra voru óbreyttir borgarar og ættingjar hermanna. Sautján indverskir hermenn féllu í árás vígamanna á herstöð í Uri árið 2016.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×