Erlent

Valdamenn í dómsmálaráðuneytinu vildu setja Trump forseta af

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Andrew McCabe, fyrrverandi alríkislögreglustjóri. Nordicphotos/AFP
Andrew McCabe, fyrrverandi alríkislögreglustjóri. Nordicphotos/AFP
Æðstu menn innan bandaríska dómsmálaráðuneytisins ræddu sín á milli um að leita til ráðherra um að hópa sig saman, virkja 25. viðauka bandarísku stjórnarskrárinnar og þvinga Donald Trump forseta úr embætti eftir að hann rak alríkislögreglustjórann James Comey í maí 2017.

Þetta sagði Andrew McCabe, fyrrverandi starfandi alríkislögreglustjóri, í viðtali við viðtalsþáttinn 60 Minutes en brot voru birt úr þættinum í gær. Kveðið er á um í viðaukanum að varaforseti og meirihluti ráðherra eða þings geti sett forseta af, sé forsetinn talinn vanhæfur til að gegna skyldum sínum.

Þá sagðist McCabe einnig hafa fyrirskipað rannsókn á því hvort Trump hafi með brottrekstri Comeys gerst sekur um að hindra framgang réttvísinnar. Þetta sagðist hann hafa gert til þess að slá skjaldborg um rannsókn Roberts Mueller, sérstaks saksóknara dómsmálaráðuneytisins, á meintum óeðlilegum afskiptum rússneskra yfirvalda af forsetakosningunum 2016 og meintu samráði forsetaframboðs Trumps við rússnesk yfirvöld en Trump hefur ítrekað lýst yfir vanþóknun sinni á rannsókninni.

McCabe var sjálfur rekinn í mars á síðasta ári þegar Jeff Sessions, þáverandi dómsmálaráðherra, sagði að innra eftirlit hafi sýnt fram á að McCabe læki upplýsingum til blaðamanna og afvegaleiddi rannsakendur.

Forsetinn svaraði á Twitter og sagði McCabe þykjast vera „saklausan engil þegar hann var í raun stór hluti hneykslis spilltu Hillary og Rússlandssvindlsins – brúða fyrir Comey“.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×