Viðskipti innlent

Hreiðari og Magnúsi ekki gerð refsing

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Hreiðar Már Sigurðsson.
Hreiðar Már Sigurðsson. Vísir/Vilhelm
Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, og Magnús Guðmundsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings í Lúxemborg, voru í Landsrétti í gær fundnir sekir um fjárdrátt og hlutdeild í fjárdrætti í Marple-málinu svokallaða. Hvorugum var gerð refsing vegna brota sinna þar sem þeir hafa náð sex ára refsihámarki auðgunarbrota með fyrri dómum í hrunmálum.

Ákært var í þremur liðum en sýknað í tveimur þeirra. Sakfellt var í lið sem sneri að millifærslu á þremur milljörðum króna frá Kaupþingi hf. til Kaupþings LÚX en þaðan enduðu peningarnir á reikningi félagsins Marple. Fjárfestirinn Skúli Þorvaldsson, eigandi Marple, og Guðný Arna Sveinsdóttir, fyrrverandi fjármálastjóri Kaupþings, voru sýknuð af ákærum sínum. Með því staðfesti Landsréttur sýknudóm Guðnýjar en Skúli hafði hlotið sex mánaða dóm í héraði.

Þá var viðurkennd skaðabótakrafa Kaupþings á hendur Hreiðari Má og Magnúsi vegna brota þeirra. Tvímenningarnir þurfa að greiða þriðjung málsvarnarlauna verjenda sinna í héraði og fyrir Landsrétti. Annar kostnaður fellur á ríkissjóð.

Fréttin hefur verið leiðrétt en í fyrri útgáfu sagði að Skúli hefði verið ákærður fyrir fjárdrátt eða umboðssvik. Það var ekki rétt. Hann var ákærður fyrir hilmingu og til vara peningaþvætti. Beðist er velvirðingar á þessu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×