Skoðun

Til ritstjóra DV

Ívar Halldórsson skrifar
Dear Virðulegi ritstjóri,

Ég kem mér beint að efninu:

DV - Dregið í Vörn

Mér finnst þú hafa misnotað aðstöðu þína sem fréttastjóri og gert mér erfiðara fyrir að tjá mínar skoðanir opinberlega. „Nei!“, hugsar þú núna og Dregur þig í Vörn, „þú mátt tjá þig eins og þú vilt!“ En staðreyndin er sú að ef ég voga mér að viðra mínar skoðanir varðandi ákveðin mál þá er ég málaður af miðli þínum sem einhver fordómafullur fáviti með íhaldssamar skoðanir.

DV - Dauðans Vargar

Miðill þinn refsar mér með því að láta mig standa frammi fyrir því að þurfa að vega og meta hvort ég vilji hætta á að særa fjölskyldu mína og vinnufélaga með því að viðra skoðanir mínar opinberlega. Þið sitjið um mig og skrif mín eins og Dauðans Vargar til að búa til afbakaðar æsifréttir sem afla ykkur illa fenginna aura á kostnað minn og þeirra sem ég umgengst.

DV - Djöfulleg Vélarbrögð

Miðill þinn byrjar nú nánast alltaf á því að segja að ég fordæmi fóstureyðingar, samkynhneigð og veitingastaði - og að segja að skoðanir mínar séu íhaldssamar. Fólk hugsar um leið: „Ívar er fordómafullur fáviti“. (Smá ábending: Það er ekki beint hægt að fordæma veitingastaði - orðið sem þú leitar að en finnur ekki er „gagnrýni“) Þú gefur alltaf sama tóninn þannig að lesendur eru undirbúnir að lesa grein fulla af fordómafullum skoðunum eftir æsandi inngang þinn - og gildir þá einu um hvað greinin fjallar um. Þú notar miðil þinn til að kasta rýrð á það sem ég vill tjá mig um. Þú gerir mig ótrúverðugan og niðurlægir mig persónulega í miðli þínum. Þetta eru Djöfulleg Vélarbrögð sem fá lesendur til að fella þyngri dóma en ella.

DV - Dularfull Vinnubrögð

Ég hef tilfinningar og skoðanir eins og aðrir. Þess vegna finnst mér gott að búa í landi þar sem...eða á að ríkja tjáninga- og skoðanafrelsi. Í landi þar sem hvatt er til samfélagslegrar og málefnalegrar umræðu um það sem tengir okkur saman og varðar okkur öll. Þú ræðst á mína persónu þegar ég nota þetta frelsi - þó ekki til að fordæma; heldur til að gagnrýna eða einfaldlega koma með innlegg inn í þjóðfélagslega umræðu. Þetta eru heldur betur mjög Dularfull Vinnubrögð. Ef þú ert ekki sammála mér getur þú birt þína eigin grein til að mótmæla minni skoðun - en þú hefur ekki leyfi til að taka greinar mínar úr samhengi eða mála mynd af mér sem svertir ímynd mína og girðir niður um mig opinberlega.

DV - Deyfir Vitund

Ástæðan fyrir því að fólk þorir ekki að viðra skoðanir sínar hérlendis varðandi ákveðin mál er sú að það er rakkað niður ef það aðhyllist ekki vinsælustu skoðanirnar - t.d. af miðlum eins og þínum sem virðast búnar að dæma fyrirfram hvað sé rétt og frambærileg skoðun. Það er spurning hver er í raun að fordæma. Miðill þinn ýtir undir þjóðlæga meðvirkni og bælir niður skoðanafrelsi og Deyfir betri Vitund fólksins með vinnubrögðum sem er auðvitað ekkert nema ákveðin tegund af einelti.

DV - Dónaskapur og Virðingarleysi

Miðill þinn hefur ekki rétt á að afskræma minn málflutning með niðrandi fyrirsögnum og leiðurum. Það er Dónaskapur og Virðingarleysi. Að gefa í skyn að ég sé fordómafullur öfgamaður er það sama og að villa á mér heimildir og í raun ljúga upp á mig einhverju sem á sér ekki stoð í raunveruleikanum. Þetta er vanvirðing við mig sem ég sætti mig ekki við.

DV - Dritað yfir Vinnusiðferði

Þá vil ég benda á að ég tek fulla og persónulega ábyrgð á mínum eigin skoðunum. Þetta eru mínar skoðanir, og þær endurspegla ekkert endilega skoðanir vinnuveitenda minna, fjölskyldu eða vina. Ég skrifa einungis nafn mitt undir skoðanaskrif mín; engan starfstitil til að undirstrika að ég blanda ekki þessu tvennu saman. Skoðanir mínar hafa engin áhrif á störf mín og nota ég vinnustað minn aldrei til að koma skoðunum sem umdeildar eru í umræðunni á framfæri. Þú leyfir miðli þínum þó að Drita yfir þetta Vinnusiðferði. Ég hef nefnilega aldrei og mun aldrei misnota starfsaðstöðu mína til að troða skoðunum mínum upp á aðra. Miðill þinn gefur hins vegar skít í þessa virðingu sem ég sýni þeim sem mér eru kærir, með því að troða inn vinnustað mínum þegar þið takið mig fyrir - og búið þannig til villandi tengingar í mína óþökk. Þetta leyfir þú til að græða meira á mínum skoðunum, eins og þú í raun sagðir við mig hreint út í símtali um daginn, þegar ég bað þig að virða óskir mínar varðandi matreiðslu ykkar á mínum skoðunum. Þetta kann ég ekki að meta - og það veist þú; en hefur þó ekki virt.

Dálítil Viðbót

Ég krefst þess að miðill þinn hætti að niðurlægja mig, fjölskyldu mína og hætti einnig að setja vinnuveitendur mína í erfiða aðstöðu vegna þeirrar öfgamyndar sem miðill þinn málar af mér.

Leyfðu lesendum þínum að gera upp sinn eigin hug þegar þeir lesa skoðanir mínar. Sýndu þeim þá virðingu að vera ekki að troða fordómafullum skoðunum miðils þíns á mér, upp á þá. Þetta er hugsandi fólk sem getur tekið afstöðu til skoðana minna án þinnar „hjálpar“ - hundsað þær eða heiðrað. Þú vilt kannski ekki að þeir séu sammála mér en það er óheiðarlegt að stýra þeim í burtu frá mínum skoðunum með því að telja þeim í trú um að ég sé öfgafullur og íhaldssamur hálfviti.

Dreifum Virðingu,

Kveðja,

Bara Ívar Halldórsson




Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×