Fótbolti

Fanndís ósátt að fara ekki með til Algarve

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Fanndís Friðriksdóttir fer ekki með í sólina.
Fanndís Friðriksdóttir fer ekki með í sólina. vísir/vilhelm
Fanndís Friðriksdóttir, leikmaður Vals í Pepsi-deild kvenna og fastamaður í íslenska landsliðinu til fjölda ára, er ekki í landsliðshópnum sem fer á Algarve-mótið á þessu ári.

Jón Þór Hauksson, landsliðsþjálfari, tilkynnti Algarve-hópinn á blaðamannafundi í höfuðstöðvum KSÍ í dag en eftir að hafa valið Fanndísi í fyrsta hópinn sinn í janúar er hún ekki á leið á þetta árlega, sterka æfingamót.

„Fanndís er að koma heim frá Ástralíu og er að hefja sinn undirbúning með Val í Pepsi-deildinni. Við töldum á þessum tímapunkti að hún þyrfti að vera heima frekar en að fara með okkur á Algarve í tvær vikur og spila þrjá leiki,“ segir Jón Þór um ákvörðun sína.

Landsliðsþjálfarinn viðurkennir að Fanndís hafði lítinn húmor fyrir ákvörðuninni en hún hefði mögulega náð sínum 100. landsleik á Algarve. Fanndís hefur spilað 98 landsleiki og farið á öll þrjú stórmót landsliðsins frá upphafi.

„Eðlilega var Fanndís ekki sátt við það að koma ekki með liðinu til Algarve. Við ræddum málin og ég greindi henni frá okkar forsendum fyrir þessu vali,“ segir Jón Þór.

„Hún er mikill keppnismaður eins og aðrir í þessu liði og taldi sig vera tilbúna í að koma með okkur. Við skildum sátt eftir okkar fund en ég held að það sé enginn sátt við að detta úr landsliðhóp,“ segir Jón Þór Hauksson.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×