Innlent

Aðgerðaráætlun TR vegna búsetuútreikninga komin til félagsmálaráðuneytisins

Andri Eysteinsson skrifar
Tryggingastofnun ríkisins hefur sent félagsmálaráðuneytinu aðgerðaáætlun vegna búsetuútreikninga örorku.
Tryggingastofnun ríkisins hefur sent félagsmálaráðuneytinu aðgerðaáætlun vegna búsetuútreikninga örorku. Vísir/Hanna
Tryggingastofnun hefur sent félagsmálaráðuneytinu aðgerðaáætlun vegna endurskoðunar á búsetuútreikningi örorkulífeyrisþega. Frá þessu er greint í tilkynningu á vef Tryggingastofnunar. Enn fremur segir í tilkynningunni að þegar fjárheimildir liggi fyrir sé ekkert því að vanbúnaði að hefjast handa.

Í byrjun árs staðfesti félagsmálaráðuneytið að Tryggingastofnun ríkisins, TR, hefði hlunnfarið stóran hóp öryrkja um milljarða króna á undanförnum árum.

Í bréfi ráðuneytisins til velferðarnefndar Alþingis var staðfest að sú lagaframkvæmd TR að skerða örorkubætur einstaklinga á grundvelli búsetu stæðist ekki lög.

Búsetuskerðing er þegar fólk sem búið hefur tímabundið erlendis fær skertar örorkubætur vegna búsetu þeirra í öðru landi, en gert er ráð fyrir að það fái einnig bætur þaðan.

Lögmaður Öryrkjabandalagsins, Daníel Isebarn var til viðtals í kvöldfréttum Stöðvar 2 4. Janúar síðastliðinn. Daníel sagði málið afar alvarlegt, sérstaklega í ljósi þess að bandalagið væri búið að benda TR á stöðuna í áratug.

Eins og fyrr sagði hefur TR nú sent Félagsmálaráðuneytinu aðgerðaáætlun sína og verður breytt framkvæmd kynnt síðar.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×