Erlent

Flugfélög vestan hafs bjóða upp á fleiri möguleg kyn við bókun

Andri Eysteinsson skrifar
American Airlines er eitt flugfélagana sem um ræðir
American Airlines er eitt flugfélagana sem um ræðir EPA/ Erik S. Lesser
Bandarísku flugfélögin American, Delta og United hafa ákveðið að breyta bókunarkerfi sínu til þess að koma til móts við þau sem hvorki skilgreina sig sem karl eða konu. Frá þessu greinir AP.

„Viðskiptavinahópur okkar er mjög fjölbreyttur og mun þetta falla vel í kramið hjá þeim“ sagði talsmaður American Airlines, Matt Miller.

Einhver munur er á framkvæmd milli flugfélaga en United Airlines mun til dæmis bjóða upp á möguleika um að velja á milli bókstafanna M fyrir karlkyn, F fyrir kvenkyn og U eða X fyrir ótilgreint kyn.

Þetta segir talskona flugfélagsins Andrea Hiller. Einnig verður boðið upp á möguleikann á titlinum Mx. Í stað hefðbundins Mr., Ms. Eða Mrs. eins og gert er nú.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×