Innlent

Segja tilskipun ESB eyðileggja internetið

Aðalheiður Ámundadóttir skrifar
Það styttist í úrslitastundina í tæplega þriggja ára löngu lobbíistastríði um nýja höfundarréttartilskipun sem verið hefur í smíðum í Brussel í tæp þrjú ár. Helstu hagsmunaaðilar á sviði annars vegar höfundarréttar og hins vegar upplýsingamiðlunar í Evrópu, og reyndar heiminum öllum hafa skipst í fylkingar með og á móti tilskipuninni. Annar hópurinn, með tónlistarmenn, kvikmyndaframleiðendur og alla helstu fjölmiðla Evrópu innanborðs, segir tilskipunina nauðsynlega til að stemma stigu við alræði og rányrkju netrisanna Google, YouTube, Facebook og Twitt­er, sem hagnist gríðarlega á ólöglegum deilingum höfundarvarins efnis, án þess að eigendur efnisins og rétthafar fái nokkuð í sinn hlut.

Hinn hópurinn, sem í eru ekki aðeins netrisarnir sjálfir heldur einnig fjölmörg mannréttindasamtök og talsmenn tjáningar- og upplýsingafrelsis, segir að tilskipunin muni binda enda á frjálsa miðlun upplýsinga og breyta internetinu eins og við þekkjum það og jafnvel eyðileggja það alveg.

Talsmenn tilskipunarinnar á vettvangi Evrópusambandsins hafa brugðist hart við gagnrýninni og vísa henni á bug sem falsfréttum runnum undan rifjum netrisanna Google, YouTube, Facebook og Twitter. Hugmyndin sé að færa höfundarréttinn inn í 21. öldina og rétta hlut tónlistarmanna, kvikmyndaframleiðenda, fjölmiðla og annarra rétthafa enda raunveruleikinn sá að netrisarnir taki til sín lungann af tekjum þeirra.

Tilskipunin verður borin upp til samþykktar í viðeigandi nefnd Evrópuþingsins næsta mánudag og verði hún samþykkt þar fer hún til almennrar atkvæðagreiðslu í Evrópuþinginu annaðhvort seint í mars eða snemma í apríl. Búast má við að stríðandi fylkingar nýti sér nú komandi kosningar til Evrópuþingsins og þrýsti sem aldrei fyrr á þingmenn sem hyggja á endurkjör.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×