Erlent

„Mér er alveg sama. Ég trúi Pútín“

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Trump og Pútín hittust á G20-fundi í Hamborg árið 2017.
Trump og Pútín hittust á G20-fundi í Hamborg árið 2017. Vísir/EPA
„Mér er alveg sama. Ég trúi Pútín,“ er Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, sagður hafa sagt við embættismenn innan njósnakerfis Bandaríkjanna. Trump er sagður hafa látið ummælin falla eftir að embættismennirnir reyndu að sannfæra hann um að staðhæfingar hans um vopnagetu Norður-Kóreu væru ekki í samræmi við upplýsingar þeirra.

Þetta kom fram í eldfimu viðtali 60 mínútna við Andrew McCabe, sem tók við tímabundið við stjórnartaumunum í FBI, bandarísku alríkislögreglunni, eftir að James Comey var rekinn. McCabe segist ekki hafa verið viðstaddur fundinn þar sem Trump er sagður hafa látið ummælin falla en að kollegi hans innan FBI, sem var viðstaddur, hafi sagt McCabe frá því eftir fundinn.

Á fundinum er Trump sagður hafa rætt sérstaklega um eldflaugaskot Norður-Kóreumanna og þá trú hans að ríkið hefði ekki getuna til þess að skjóta eldflaug frá Norður-Kóreu til Bandaríkjanna. Þessar upplýsingar hafi hann fengið beint í æð frá Vladimír Pútín, forseta Rússlands.

Andrew McCabe starfaði stuttlega sem forstjóri FBI.Getty/Alex Wong
„Embættismennirnir sem voru viðstaddir fundinn sögðu honum þá frá því að það stemmdi ekki við þær upplýsingar sem njósnastofnanir okkar höfðu í fórum sínum,“ sagði McCabe í viðtalinu.

„Forsetinn svaraði: Mér er alveg sama. Ég trúi Pútín,“ sagði McCabe í viðtalinu.

Greindi McCabe frá því að hann hafi orði hneykslaður er honum var sagt frá ummælum Trump. Mikill tími fari í að safna upplýsingum svo forsetinn geti tekið upplýstar ákvarðanir.

„Að komast að svo miklu vantrausti og hversu óviljugur hann er til þess að fá upplýsingar um hvernig þeim málum er háttað sem hann þarf að glíma við á hverjum degi var áfall.“


Tengdar fréttir

Hóf rannsókn á Trump til að verja Rússarannsóknina

Fyrrverandi aðstoðarforstjóri FBI segist hafa reynt að verja Rússarannsóknina með því að skipa fyrir um rannsókn á hvort Trump forseti hafi reynt að hindra framgang réttvísinnar þegar hann rak James Comey sem forstjóra FBI.

Vill rannsaka hvort staðið hafi til að steypa Trump af stóli

Formaður laganefndar Bandaríkjaþings hefur heitið því að komast til botns í sögusögnum sem verið hafa á sveimi þess efnis að menn úr leyniþjónustu Bandaríkjanna og víðar úr stjórnkerfinu hafi rætt það sín í milli að beita 25. viðauka stjórnarskrár Bandaríkjanna til þess að koma Donald Trump forseta frá völdum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×