Erlent

Sér mikið eftir því að hafa gengið til liðs við ISIS og vill snúa heim til Banda­ríkjanna

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Hér má sjá mynd af Muthönu sem birt var á Twitter fyrir nokkrum árum.
Hér má sjá mynd af Muthönu sem birt var á Twitter fyrir nokkrum árum.
Hoda Muthana, 24 ára gömul bandarísk kona sem gekk til liðs við hryðjuverkasamtökin ISIS, kveðst sjá mikið eftir því að hafa ferðast til Sýrlands á sínum tíma til að ganga til liðs við samtökin.

Hún hefur beðið um að fá að snúa heim til fjölskyldu sinnar í Alabama en Muthana var tekin höndum af Kúrdum eftir að hún flúði frá síðasta yfirráðasvæði ISIS en það er á landamærum Sýrlands og Írak. Hún dvelur nú í flóttamannabúðum í Sýrlandi ásamt 18 mánaða syni sínum.

Muthana var áberandi á samfélagsmiðlum eftir að hún gekk til liðs við ISIS og kallaði meðal annars eftir því að Bandaríkjamenn yrðu drepnir. Nú segist hún hafa gert mikil mistök þegar hún fór frá heimalandi sínu fyrir fjórum árum en breska blaðið Guardian ræddi við hana.

„Við vorum einfaldlega fávís“

Muthana kveðst hafa misskilið trú sína, íslam. Á sínum tíma hafi vinir hennar talið að þeir væru að fylgja kenningum trúarinnar með því að ganga til liðs við ISIS.

„Við vorum einfaldlega fávís […] og svo kom heilaga stríðið, ef þú vilt lýsa því þannig. Ég hélt að ég væri að gera hlutina rétt vegna Guðs,“ segir Muthana.

Hún er eini Bandaríkjamaðurinn af um 1500 erlendum konum og börnum sem eru í flóttamannabúðunum en alls dvelja þar um 39 þúsund manns.

Segja má að saga Muthönu innan ISIS sé samofin miklum uppgangi samtakanna og svo falli þeirra síðustu fimm árin.

Muthana flúði að heiman árið 2014 og flaug til Tyrklands. Hún undirbjó ferðina í nokkra mánuði og hélt öllu leyndu fyrir fjölskyldu sinni. Hún kom sér síðan fyrir í sýrlensku borginni Raqqa sem þá var önnur af aðalborgum ISIS, hin var Mosul í Írak.

Í Raqqa hitti Muthana ástralskan vígamann að nafni Suhan Rahman. Hún giftist honum en hann var sá fyrsti af þremur eiginmönnum hennar.

Árið 2015 fór Muthana mikinn á Twitter þar sem hún sendi frá sér ýmis ógnvekjandi skilaboð. Nú segir hún að Twitter-reikningurinn hennar hafi verið tekinn yfir af öðrum einstaklingum.

Fjöldi fólks, kvenna, barna og vígamanna, hafa undanfarið flúið síðasta yfirráðasvæði ISIS í Sýrlandi.vísir/getty

Óttast um framtíð sonar síns

Fyrsti eiginmaður Muthönu var myrtur í bænum Kobaní en hún giftist aftur, vígamanni frá Túnis, og eignaðist með honum son sinn, Adam.

Maður hennar var svo myrtur í Mosul og Muthana flúði ásamt tugum annarra kvenna enn lengra inn á svæði ISIS sem fór stöðugt minnkandi. Þar giftist hún svo sýrlenskum vígamanni.

Muthana segir að fjölskylda hennar í Alabama hafi verið mjög íhaldssöm og meðal annars ekki leyft henni að fara út til að hitta vini sína. Þetta hafi átt sinn þátt í því að snerist til öfgatrúar.

„Þig langar að fara út með vinum þínum og ég mátti það ekki. Ég sneri mér að trúnni og fór of geyst í því. Ég kenndi sjálfri mér og hélt að allt sem ég læsi væri rétt. Núna horfi ég til baka og tel að ég hafi verið fávís. Ég óttast um framtíð sonar míns,“ segir Muthana.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×