Erlent

Líklegt að fjölmörg ríki kæri neyðarástand Trump

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Donald Trump er forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump er forseti Bandaríkjanna. Vísir/EPA
Dómsmálaráðherra Kaliforníu-ríkis Bandaríkjanna segir að fjölmörg ríki þar í landi muni taka þátt í lögsókn Kaliforníu vegna neyðarástandsins sem Donald Trump lýsti yfir á dögunum á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó.

Xavier Becerra lýsti því yfir í gær að lögsóknin væri væntanleg og verður hún þá væntanlega ein af fjölmörgum sem Trump og ríkisstjórn hans munu þurfu að glíma við vegna neyðarástandsins.

Eftir að ljóst var að forsetinn myndi ekki fá það fjármagn sem hann hafði krafist frá þinginu til að reisa múr eða girðingu á landamærunum nýtti hann sér ákvæði í lögum sem gerir honum kleift að sækja fjármagn í tilfell neyðarástands. Afar umdeilt  er hvort að lögin eigi við um í þessu tilfelli og segja Demókratar að ákvörðunin sé brot á stjórnarskrá Bandaríkjanna

Becerra sagði að Nýja-Mexíkó, Oregon, Minnesóta, New Jersey, Hawaí og Connecticut væri á meðal þeirra ríkja sem myndu kæra alríkisstjórnina vegna neyðarástandsins. Sagði hann ástæðu lögsóknar ríkjanna vera þá að þau vildu ekki eiga á hættu að fjármagn sem væri eyrnamerkt þeim yrði fært til byggingar múrsins.

Þá sé það mat Kaliforníu að Trump viti að hann muni tapa málinu fyrir dómstólum og hans eina von sé Hæstiréttur Bandaríkjanna sem hallar sér í íhaldssama átt eftir að tvær síðustu skipanir í dómstólinn, báðar á vegum Trump.

Líklegt þykir að ef fulltrúadeild Bandaríkjaþings muni ekki samþykkja neyðarástandstilskipun Trump muni hann beita neitunarvaldi sínu. Það yrði í fyrsta sinn frá því að hann tók við embætti árið 2017 sem hann myndi beita neitunarvaldinu.


Tengdar fréttir

Trump mun lýsa yfir neyðarástandi

Hann ætlar einnig að skrifa undir útgjaldafrumvörp sem þingmenn Repúblikanaflokksins og Demókrataflokksins komust að samkomulagi um varðandi fjármögnun til öryggismála á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×