Lífið

Breyta fyrirkomulaginu: Atkvæðin fylgja lögunum í úrslitin

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Lögin tvö sem mætast í einvíginu taka með sér atkvæðin sem þau fengu úr fyrri umferð kvöldsins.
Lögin tvö sem mætast í einvíginu taka með sér atkvæðin sem þau fengu úr fyrri umferð kvöldsins. RÚV
Framkvæmdastjórn Söngvakeppninnar hefur gert breytingu á fyrirkomulaginu á úrslitakvöldi keppninnar en í ár verður sá háttur hafður á að atkvæðamesta lagið yfir allt kvöldið laugardaginn 2. mars sigrar keppnina og keppir fyrir hönd þjóðarinnar í Tel Aviv í maí.

Þetta staðfestir Rúnar Freyr Gíslason sem er í framkvæmdastjórn Söngvakeppninnar.

Á úrslitakvöldinu keppa fimm lög í fyrri umferð en aðeins tvö lög komast í hið svokallaða einvígi. Í staðinn fyrir að atkvæðin „núllist út“ fyrir einvígið taka lögin tvö með sér í úrslit þau atkvæði sem þau fengu úr símakosningu og frá dómnefnd úr fyrri umferð lokakvöldsins.

Rúnar Freyr Gíslason er einn af fjórum sem skipa framkvæmdastjórn Söngvakeppninnar.Rúnar Freyr Gíslason
Í ár er dómnefndin alþjóðleg en hún er skipuð tíu einstaklingum, þar af 7 útlendingum og 3 Íslendingum. Þeirra dómur mun vega 50% á móti hinum 50 prósentunum sem eru símaatkvæði áhorfenda í fyrri umferð.

Rúnar Freyr segir að breytingin sé einn liður í sífelldri þróun söngvakeppninnar og að framkvæmdastjórnin sé vakandi fyrir nýjum leiðum til að bæta fyrirkomulag hennar.

Rúnar Freyr segir að þegar nær dregur úrslitum verði greint frá því hvaða fólk það sé sem skipar dómnefndina.


Tengdar fréttir

Myndaveisla frá Söngvakeppninni

Friðrik Ómar Hjörleifsson og Tara Mobee tryggðu sér í gærkvöldi sæti í úrslitum Söngvakeppninnar 2019 á RÚV og er því ljóst hvaða flytjendur stíga á svið á úrslitakvöldi Söngvakeppninnar sem fram fer í Laugardalshöll 2. mars næstkomandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×