Innlent

Undir áhrifum með tvö börn í bílnum

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Lögreglan stöðvaði fjölmarga stúta undir stýri í nótt.
Lögreglan stöðvaði fjölmarga stúta undir stýri í nótt. Vísir/vilhelm
Fjöldi ökumanna komst í kast við lögin í gærkvöldi og nótt. Sex eru taldir hafa verið undir áhrifum vímuefna við aksturinn og þrír óku þar að auki án þess að hafa til þess réttindi.

Lögreglan stöðvaði til að mynda ökumann í Garðabæ á áttunda tímanum sem þótti vera með grunsamlegt aksturslag. Í dagbókarfærslu lögreglunnar segir að eftir að ökumanninum hafði verið gefið merki um að stöðva bifreiðina „skiptu ökumaður og farþegi um sæti áður en bifreiðin var stöðvuð,“ eins og það er orðað.

Þegar lögreglumenn gáfu sig á tal við ökumennina kom í ljós að um par, sem talið er hafa verið undir áhrifum áfengis og vímuefna, var að ræða. Auk þeirra voru tvö ung börn í bílnum. Parið hefur verið kært fyrir vímuefnaakstur og fyrir að hafa ekið án þess að nota öryggisbelti við aksturinn. Ekki liggur fyrir hvort ökumennirnir séu foreldrar barnanna.

Börnunum var ekið heim og komið í öruggar hendur meðan unnið var í málinu, sem jafnframt var tilkynnt til barnaverndar. Annar ökumaður undir áhrifum fíkniefna var jafnframt stöðvaður á Reykjanesbraut í gærkvöldi. Í ljósi þess að farþegi í bifreiðinni var 16 ára, þunguð stúlka var málið því einnig tilkynnt til barnaverndar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×