Innlent

Austanstormur síðdegis

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Lægð nálgast landið úr suðri.
Lægð nálgast landið úr suðri. Vísir/vilhelm
Veðurstofan varar við austanstormi í kvöld og nótt. Þar að auki sé útlit sé fyrir hríð á fjallvegum um land allt með lélegu skyggni. Þannig er búist við að vindhraði verði á bilinu 20 til 25 m/s undir Eyjafjöllum í nótt og gætu hviður náð 40 m/s. Því geti víða verið varhugavert ferðaveður.

Veðurfræðingur rekur vendingarnar til vaxandi lægðar sem nú nálgast landið úr suðri. Það verði því austanátt í dag með stöku skúrum eða éljum á suðurhluta landsins, en þó hægari vindur og þurrt á Norður- og Austurlandi. Lægðin verður nálægt landinu í nótt og því hvessir, og þykknar meira upp, í kvöld og nótt, fyrst syðst á landinu.

Vindhraðinn gæti því víða orðið á bilinu 18 til 23 m/s og hitinn allt að sex gráðum. Það má búast við slyddu sunnantil sem gæti þó orðið að rigningu á láglendi. Þar að auki er gert ráð fyrir hríð á fjallvegum í öllum landshlutum. Það lægir svo snemma á morgun, fyrst syðst á landinu, og styttir upp. Suðlæg átt, 5-13 m/s síðdegis, úrkomulítið og kólnar aftur, en næsta lægð nálgast svo aðfaranótt föstudags.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á miðvikudag:

Austan 18-23 m/s og rigning eða slydda, en yfirleitt snjókoma um landið norðaustanvert. Hiti frá frostmarki á Norðausturlandi, upp í 7 stiga hita með suðurströndinni. Lægir talsvert um hádegi, fyrst syðst á landinu. Suðlæg átt 5-13 seinnipartinn, úrkomulítið og kólnar í veðri.

Á fimmtudag:

Sunnan 13-20 m/s, hvassast vestast á landinu og rigning, en þurrt að kalla á Norður- og Austurlandi. Hiti 4 til 9 stig.

Á föstudag:

Hæg suðlæg átt og þurrt, en austlægri vindur, 8-15 m/s, og rigning suðaustan- og austantil á landinu. Hiti 1 til 6 stig.

Á laugardag:

Suðlæg átt 10-15 m/s og víða rigning, en hvöss vestanátt og snjókoma um kvöldið. Kólnandi veður.

Á sunnudag:

Hæg breytileg átt, léttskýjað og frost 0 til 5 stig. Vaxandi suðaustanátt og hlýnar um kvöldið, og fer einnig að ringna sunnan- og vestanlands.

Á mánudag:

Hæg vestlæg eða breytileg átt og léttskýjað, en stöku él um vestanvert landið. Hiti kringum frostmark.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×