Enski boltinn

Telur að Solskjær fái starfið hjá United ef hann vinnur Liverpool

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Það gengur nánast allt upp hjá Ole Gunnar Solskjær.
Það gengur nánast allt upp hjá Ole Gunnar Solskjær. vísir/getty
Paul Merson, fyrrverandi landsliðsmaður Englands og einn helsti sparkspekingur Sky Sports, telur að Ole Gunnar Solskjær fái stjórastarfið hjá Manchester United til frambúðar ef honum tekst að leggja Liverpool að velli á sunnudaginn.

Eftir tíu sigra í tólf leikjum er komið að stóru stundinni hjá Solskjær því United tekur á móti erkifjendunum á sunnudaginn. Norðmaðurinn tók einmitt við liðinu eftir 3-1 tap United undir stjórn Mourinho í desember sem var banabiti Portúgalans hjá félaginu.

Solskjær er búinn að leggja bæði Arsenal og Chelsea í bikarnum og kominn upp fyrir bæði félög í fjórða sæti ensku úrvalsdeildarinnar og stefnir á Meistaradeildarsæti. Ekkert af þessu virtist mögulegt á síðustu dögum Mourinho.

„Eftir að koma svona sterkir til baka eftir tapið gegn PSG og vinna Chelsea sé ég United alveg geta unnið Liverpool. Það yrðu góð úrslit fyrir Liverpool að ná í stig á sunnudaginn. Það segir mér að Ole er að gera eitthvað rétt. Það kæmi mér gríðarlega á óvart ef Solskjær fær ekki starfið ef hann vinnur Liverpool,“ sagði Merson í The Debate á Sky Sports í gærkvöldi.

„Það var ekkert að gerast hjá United fyrir þremur til fjórum mánuðum. Svo er liðið tætt í sundur af PSG en samt voru 60.000 manns að syngja nafn Solskjær í lok leiks. Eigandi félagsins hlýtur að hugsa með sér hversu frábært andrúmsloftið er því fyrir þremur til fjórum mánuðum hefði allt verið brjálað.“

„Eftir að horfa á sigurinn á móti Chelsea kæmi mér verulega á óvart ef United nær ekki einu af fjórum efstum sætunum og það yrði jafn stórt fyrir liðið og að vinna enska bikarinn. Það var bara svo langt frá því að gera eitthvað á þessari leiktíð. United er stærsta félag heims að mínu mati og þarf að vera í Meistaradeildinni,“ sagði Paul Merson.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×