Innlent

Allir keyri á áttatíu vegna ástands vega

Sighvatur Jónsson skrifar
Í drögum að nýjum umferðarlögum er lagt til að hámarkshraði allra ökutækja verði samræmdur.
Í drögum að nýjum umferðarlögum er lagt til að hámarkshraði allra ökutækja verði samræmdur. Vísir/Andri Marinó
Framkvæmdastjóri Olíudreifingar vill að hámarkshraði allra ökutækja verði færður niður í 80 kílómetra á klukkustund á þjóðvegum landsins. Hann segir aðstæður vega ekki leyfa þungaflutninga á meiri hraða, því sé skynsamlegra að lækka hámarkshraða allra ökutækja í stað þess að hækka hámarkshraða flutningabíla aftur.

Endurskoðun umferðarlaga

Frumvarp til nýrra umferðarlaga er til kynningar í samráðsgátt stjórnvalda. Markmiðið með heildarendurskoðun umferðarlaga er að stuðla frekar að umferðaröryggi og bregðast við breytingum á samgöngum og samfélaginu á undanförnum árum.

Meðal hugmynda er að samræma hámarkshraða allra ökutækja, þannig verði hámarksökuhraði utan þéttbýlis 80 kílómetrar á klukkustund á malarvegum og 90 kílómetrar á klukkustund á vegum með bundnu slitlagi. Þetta er breyting á gildandi lögum, samkvæmt þeim má ekki aka flutningabílum sem eru meira en 3,5 tonn að þyngd hraðar en 80 kílómetra á klukkustund.

Hörður Gunnarsson, framkvæmdastjóri Olíudreifingar.Vísir/Baldur

Vegir þoli ekki flutninga á níutíu

Málið kom til umræðu á morgunverðarfundi Vegagerðarinnar í dag þar sem rætt var um umferðaröryggi á þjóðvegum. Hörður Gunnarsson, framkvæmdastjóri Olíudreifingar, flutti erindi á fundinum fyrir hönd flutningasviðs Samtaka verslunar og þjónustu.

Hörður segir í samtali við fréttastofu að hraði sé mesta áhættuatriðið sem líta þurfi til í tengslum við öryggi á vegum landsins. Aðspurður hvort það geti pirrað ökumenn ef flutningabílum sé ekið hægar en öðrum ökutækjum segir hann að lausnin sé að færa hámarkshraða allra ökutækja niður. „Við [flutningabílstjórar] erum nú á 80 og ég tel að vegaaðstæður á Íslandi leyfi ekki þungaflutninga með meiri hraða en það við langflest skilyrði sem boðið er uppá í vegakerfinu í dag,“ segir Hörður.

Hörður telur óskynsamlegt að hækka hámarkshraða flutningabíla úr 80 í 90 kílómetra á klukkustund. Miðað við ástandið á vegum hafi flutningabílstjórar ekkert við meiri hraða að gera.

Hörður Gunnarsson hjá Olíudreifingu tekur þar með undir sjónarmið Vegagerðarinnar að lækka hámarkshraða allra ökutækja í 80 kílómetra á klukkustund í stað þess að leyfa bílstjórum flutningabíla að keyra hraðar en nú er leyfilegt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×