Innlent

Telur tillögur ríkisstjórnarinnar ábyrgar og raunsæjar

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Halldór Benjamín Þorbergsson er framkvæmdastjóri SA.
Halldór Benjamín Þorbergsson er framkvæmdastjóri SA. vísir/vilhelm
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir að tillögur ríkisstjórnarinnar um mögulegar aðgerðir til að liðka fyrir kjarasamningum séu ábyrgar og raunsæjar. SA fundaði með fulltrúum ríkisstjórnarinnar um tillögurnar í dag.

„Það voru kynntar mögulegar ráðstafanir varðandi breytingar á tekjuskattskerfi, tillögur um það hvernig mæta megi framboðsskorti á húsnæðismarkaði og síðan hluti sem ég vil kalla aðrar ráðstafanir ríkisvaldsins í tengslum við kjarasamninga.  Þessar tillögur taka mið af því efnahagsumhverfi sem við búum í, að takturinn í hagkerfinu er að hægjast tiltölulega hratt, og mér þóttu þessar tillögur ábyrgar og raunsæjar,“ segir Halldór Benjamín í samtali við Vísi.

Hann segir að það hafi lengi legi ljóst fyrir í hans huga að kjarasamningarnir myndu leysast með þeim hætti að allir aðilar myndu slá af sínum ítrustu kröfum.

„Atvinnurekendur myndu leggja sitt inn til lausnar kjaradeilunni og verkalýðsfélögin myndu meta það framlag sem kæmi frá atvinnurekendum og ríkinu sem einhvers konar samsetta lausn. Eftir þennan fund erum við komin með gleggri mynd af því hver möguleg aðkoma ríkisvaldsins gæti orðið við úrlausn kjarasamninga.“

En eru tillögur ríkisstjórnarinnar að mögulegum aðgerðum til þess fallnar að liðka fyrir lausn kjaradeilunnar?

„Miðað við þá stuttu yfirferð sem við fengum á þessum mögulegu tillögum þá eru þær sannarlega innlegg í úrlausn kjaradeilunnar en tíminn verður að leiða í ljós hversu þungt þetta vegur.“


Tengdar fréttir

Búist við að stjórnvöld sýni á spilin í dag

Stjórnvöld munu funda með aðilum vinnumarkaðarins í dag þar sem búist er við að þau muni kynna aðgerðir sem stjórnvöld eru reiðubúin að grípa til til að liðka fyrir gerð kjarasamninga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×