Erlent

ESB kallar Gíbraltar nýlendu Bretlands

Samúel Karl Ólason skrifar
Gíbraltar hefur verið í eigu Breta frá árinu 1713 og eru íbúar svæðisins breskir.
Gíbraltar hefur verið í eigu Breta frá árinu 1713 og eru íbúar svæðisins breskir. EPA/ANDRES CARRASCO RAGEL
Yfirvöld Bretlands hafa kvartað yfir því að Evrópusambandið skilgreini Gíbraltar sem breska nýlendu. Sú skilgreining er talin sýna að ESB ætli að standa við bakið á Spánverjum í deilunni um svæðið í kjölfar úrsagnar Bretlands úr sambandinu.

Skilgreining Gíbraltar sem nýlendu kom fram í frumvarpi ESB um að Bretar fái heimild til að ferðast til ríkja ESB í 90 daga í kjölfar Brexit og Evrópubúar fái sömu heimild til að ferðast til Bretlands.

Í því frumvarpi eru 33 þúsund íbúar Gíbraltar ekki skilgreindir sem breskir ríkisborgarar. Þess í stað er Gíbraltar skilgreint sem nýlenda Bretlands. Sendiherra Bretlands hjá Evrópusambandinu hefur lagt fram formleg mótmæli vegna skilgreiningarinnar.

Spánverjar og Bretar hafa deilt um yfirráð Gíbraltar um árabil. Yfirvöld Spánar hafa viljað tengja umræðu svæðisins við Brexit-viðræður Breta og ESB en yfirvöld Bretlands hafa ekki tekið það í mál.

Vilja vera breskir

Gíbraltar hefur verið í eigu Breta frá árinu 1713 og eru íbúar svæðisins breskir. Þeir stjórna sínum málum, að utanríkis- og varnarmálum undanskildum, sjálfir. Árið 2002 var haldin þjóðaratkvæðagreiðsla á Gíbraltar um fullveldi þeirra. Þar var spurt hvort að Bretar ættu að deila stjórn Gíbraltar með Spánverjum. Niðurstaðan var sú að 99 prósent þeirra um 18 þúsund íbúa sem tóku þátt í atkvæðagreiðslunni, sem kusu sögðu nei. Hins vegar kaus meirihluti þeirra að vera áfram í ESB.



Í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslunnar um Brexit hafa skoðanakannanir sýnt fram á að íbúar Gíbraltar vilja þó áfram vera breskir ríkisborgarar, samkvæmt Reuters.



Þegar Bretland gekk í ESB árið 1973 var Gíbraltar skilgreint sem nýlenda en því var breytt árið 2002.

Talsmaður Ríkisstjórnar Bretlands sagði óásættanlegt að lýsa Gíbraltar sem nýlendu. Gíbraltar væri fullgildur aðili að bresku fjölskyldunni, eins og hann orðaði það, og það myndi ekki breytast með Brexit.



Í áðurnefndu frumvarpi (neðst á næstsíðustu síðunni) segir að Gíbraltar sé nýlenda Bretlands. Þar segir einnig að deilur standi yfir milli Spánar og Bretlands um svæðið og lausn þurfi að finnast á þeirri deilu með tilliti til ályktana Allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna sem þar eiga við.



Sameinuðu þjóðirnar ályktuðu í desember að Spánn og Bretland þyrftu að finna lausn á deilunni.

Krafa Spánverja um yfirráð yfir Gíbraltar byggja á reglum Sameinuðu þjóðanna um afhendingu nýlendna. Reglur þær draga úr vægi skoðana íbúa tiltekinn „nýlendna“.

Í samtali við Reuters sagði ónefndur háttsettur embættismaður ESB að áður hefði sambandið iðulega staðið með Bretum í deilunni um Gíbraltar. Það ætti ekki lengur við. Nú væru Bretar á leið út en ekki Spánverjar og sambandið myndi standa við bakið á aðildarríkjum sínum gegn öðrum ríkjum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×