Erlent

Rýfur þögnina í kjölfar árásar: „Líkami minn er sterkur en sál mín er sterkari“

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Jussie Smollett.
Jussie Smollett. Getty/Gary Gershoff

Bandaríski leikarinn Jussie Smollett hefur sent frá sér yfirlýsingu í kjölfar árásar sem hann segist hafa orðið fyrir í Chicago í vikunni. Þetta er í fyrsta skipti sem Smollett tjáir sig um árásina en hann kemur á framfæri kærum þökkum til aðdáenda sinna í yfirlýsingu.



Í yfirlýsingu frá lögreglu í Chicago sem send var út í kjölfar árásarinnar segir að tveir menn hafi ráðist á Smollett. Þá sé talið að kynþátta- og kynhneigðarfordómar hafi vakað fyrir ásarmönnunum, sem hrópuðu ummæli lituð slíkum fordómum er þér réðust á leikarann. Smollett er bæði dökkur á hörund og samkynhneigður. Einnig eru árásarmennirnir sagðir hafa hellt yfir hann einhvers konar vökva, mögulega klór, og þá hafði snara verið fest um háls hans.



Smollett tjáir sig um árásina í yfirlýsingu sem hann sendi bandaríska miðlinum Essence í dag. Þar fulllvissaði hann aðdáendur sína um að hann væri á batavegi.



„Ég vil byrja á því að segja að það er í lagi með mig. Líkami minn er sterkur en sál mín er sterkari. Og það sem meira er, ég vil segja takk,“ sagði Smollett í yfirlýsingu sinni.



Þá sagðist hann vera samstarfsfús lögreglu við rannsókn hennar á málinu. Þrátt fyrir áhyggjur hans af orðrómum sem farið hafi á kreik um árásina á samfélagsmiðlum trúi hann því staðfastlega að réttlætið sigri. Að endingu ítrekaði hann mikilvægi þess að taka árásum sem þessari ekki af léttúð.



„Ég er ekki, og það ætti ekki að líta á mig sem, afmarkað tilvik. Við munum ræða saman von bráðar og ég mun ræða öll smáatriði þessarar hryllilegu árásar en ég þarf tíma til að vinna úr því.“



Í gær var greint frá því að Smollett hefði neitað að afhenda lögreglu síma sinn vegna rannsóknar málsins en hann er sagður hafa verið að tala við umboðsmann sinn í símann þegar ráðist var á hann. Umboðsmaðurinn heldur því fram að árásarmennirnir hafi hrópað slagorð Donalds Trump Bandaríkjaforseta, „MAGA“, er þeir réðust á Smollett.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×