Umfjöllun og viðtöl: Breiðablik - Keflavík 86-108│ Göngutúr í garðinum fyrir Keflavík

Víkingur Goði Sigurðarson skrifar
Reggie og félagar spiluðu gegn Blikum í kvöld.
Reggie og félagar spiluðu gegn Blikum í kvöld. vísir/ernir
Keflavík vann Breiðablik í 17. umferð Dominos deildar karla í kvöld. Keflvíkingar voru miklu betri alveg frá byrjun og áttu Blikar aldrei séns. 

 

Keflavík voru komnir yfir 18-8 eftir rúmar fimm mínútur og voru frá þeim tímapunkti aldrei minna en tíu stigum yfir í leiknum. Blikar voru oft að reyna svæðisvörn en það gengur bara ekki á móti liði með eins og Keflavík. Keflavík hittu frábærlega fyrir utan þriggja stiga línuna í leiknum enda voru þeir eiginlega alltaf galopnir. Sóknarleikur Blika var ágætur á köflum en þegar Keflavík virkilega vildi stopp þá náðu þeir stoppi. 

 

Af hverju vann Keflavík?

Breiðablik er einungis með einn sigur á botni deildarinnar og það er ástæða fyrir því. Keflvíkingar mættu í vinnuna í kvöld og voru einbeittir frekar en að vanmeta andstæðinginn. 

 

Hverjir stóðu upp úr?

Það liggur við að maður vilji velja allt Keflavíkur liðið. Þessir helstu sem allir búast við frammistöðum frá skilaðu fínu dagsverki, Hörður Axel, Craion og Mindungas til dæmis. Andri Þór Tryggvason var hinsvegar stigahæstur hjá Keflavík í kvöld og átti stórleik. Strákurinn var að hitta gríðarlega vel úr þriggja stiga skotunum sínum, spila ágætis vörn og var rólegur með boltann í höndunum. 

 

Það á kannski ekki að hrósa leikmönnum eftir svona stórt tap en Snorri Vignis, Bjarni Geir og ekki síst Tómas Steindórsson fá hrós fyrir baráttu í þessum leik. Það hlýtur að vera erfitt að hvetja sig áfram í seinni hálfleik þegar maður er undir með svona miklu en þessir strákar og fleiri hættu aldrei. 

 

Hvað gekk illa?

Óþarfi að fara út í hvað gekk illa hjá Blikum myndi ég segja þar sem það var mest allt. Keflavík voru stundum að gleyma sér í vörn en annars er lítið hægt að setja út á þeirra frammistöðu. 

 

Blikar vita að þeir eru ekki að fara að vinna deildina í körfubolta og eru því að reyna að vinna hana í hljóðbrellum. Það er leiðinlegt að skrifa það en þeir eru líka langt frá því að vinna hana í þeim. Þeir voru með allskonar hljóðbrellur til að reyna að bjarga stemningunni en þetta gekk ekki alveg upp í dag. Hrós hinsvegar fyrir að vera alltaf að reyna að gera eitthvað frumlegt og öðruvísi til að mynda stemningu á leikjunum sínum. 

 

Tölfræði sem vekur athygli.

53% - Þriggja stiga nýting Keflavíkur í leiknum. Blikar eru auðvitað í þeirri erfiðu stöðu að geta ekki dekkað stjörnurnar í Keflavík maður á mann en það er spurning hvort þeir þurfi að fara að hætta í þessari svæðisvörn. 

 

34 - Stoðsendingar hjá Keflavík í kvöld. Gestirnir létu boltann ganga gríðarlega vel í kvöld. 

 

24 - Fjöldi leikmanna sem spilaði í leik kvöldsins. Alltaf gaman þegar allir fá að spila þrátt fyrir að það hafi verið útaf óþarflega miklum gæðamun á milli liðanna. 

 

Hvað gerist næst?

Keflavík fá Skallagrím í heimsókn á fimmtudaginn en Blikar fara í bíltúr til Þórlákshafnar. 

 

Pétur: Þeir eru með landsliðsmenn en við unglingalandsliðsmenn

Þetta er bara undirbúningur fyrir næsta tímabil eiginlega. Það er ekki hægt að læra neitt af þessu. Að menn skíttapi fyrir áhugalitlu Keflavíkur liði þá er það bara svoleiðis,” sagði Pétur Ingvarsson þjálfari Breiðabliks eftir leikinn aðspurður hvað hans menn gætu lært af leik kvöldsins. 

 

Kofi Josephs erlendi leikmaður Blika skoraði alveg slatta í leiknum en skapaði ekki endilega mikið fyrir liðsfélaga sína. Lið eins og Breiðablik er að reyna að nýta þessa leiki í að gefa ungum leikmönnum reynslu og maður verður að velta því fyrir sér hvort þeir græði eitthvað á því að spila með honum Kofi. 

 

„Yfirleitt þegar það koma erlendir leikmenn inn í liðið þá er þetta raunin. Hann er öflugur sóknarmaður og við þurfum á því að halda. Við þurfum að fá sóknarmenn í þetta, við erum kannski ekki alveg nógu öflugir þar.” 

 

„Keflavík eru bara einu númeri of stórir fyrir okkur. Þetta er lið sem er klárlega að fara að gera góða hluti í úrslitakeppninni í vor. Þetta er bara lið sem er á allt öðrum stað heldur en við, bæði líkamlega og getulega. Þeir eru með landsliðsmenn og frábæra erlendaleikmenn í liðinu á meðan við erum með unglingalandsliðsmenn og eins og þú segir eigingjarnan Breta sko. Það er munurinn. 

 

Er eitthvað sem þér fannst ganga vel í kvöld? 

 

„Þeir sem að komu inná hérna í lokinn þeir stóðu sig mjög vel, eins og Hafþór og Matti. Svo stóðu Tommi og Þröstur sig náttúrulega líka vel en þessir strákar hafa aðallega verið að spila með B-liðinu og unglingaflokki okkar í vetur. Við veitum kannski ekki mikla mótstöðu eins og staðan er núna.” 

 

Sverrir: Vissum að við gætum stungið af

Við vorum búnir að ræða mikið um að við ætluðum að bera virðingu fyrir mótherjanum. Þó að þetta hafi verið lið sem er bara búið að vinna einn leik og er búið að tapa mjög stórt í mörgum leikjum. Það er alltaf hættulegt þegar þú mætir og heldur að þú fáir leikinn gefins. Þeir töpuðu bara með einu stigi í Borgarnesi um daginn. Við vissum alveg að ef myndum bera virðingu fyrir þeim og vera grimmir þá gætum við stungið af. Þetta var bara svona tiltölulega þægilegt,” sagði Sverrir Þór Sverrisson þjálfari Keflavíkur eftir leik kvöldsins. Sverrir var ánægður með hvernig hans menn komu út í leikinn en þeir voru rétt tæpar fimm mínútur að búa til tíu stiga forskot og litu síðan aldrei aftur. 

 

Keflavík voru duglegir að láta boltann ganga í kvöld og voru alltaf að leita að besta skotinu. Þeir nýttu skotklukkuna vel þrátt fyrir að þeir hefðu oftast getað fengið ágætt skot strax en þeir vildu reyna að fá frábær skot í hverri sókn. 

 

 

„Við vorum mikið að fara með boltann inní og nýta yfirburði okkar inni í teignum. Setja boltann inní á móti svæðisvörninni til að geta fengið hann síðan aftur út og við gerðum það bara nokkuð vel. Við hittum síðan mjög vel úr þriggja stiga skotum.” 

 

„Það var gaman að sjá innkomuna hjá Andra Tryggvasyni hjá okkur. Hann var með fjóra þrista í fyrri hálfleik og bætti síðan tveimur við í seinni. Það er alltaf gaman þegar ungur leikmaður grípur sénsinn.” 

 

Allir leikmenn Keflavíkur fengu að spila í kvöld. Þar á meðal nokkrir ungir. Sverri fannst þeir geta lært ýmislegt á því að fá spila í efstu deild. 

 

„Andri spilaði helling í gegnum allan leikinn. Þetta er fyrsta skipti þar sem hann kemur svona snemma inná í meistaraflokksleik. Hann gerði virkilega vel. Hinir komu inná í restina en síðustu mínúturnar voru kannski ekkert spes hjá okkur. Við vorum smá stressaðir kannski þar sem margir ungir voru saman inná. En það var bara gaman að þeir fengu að komu inná. Að vera tilbúinn að hafa gaman af þessu og þora að taka á skarið. Það er svona eitthvað sem þeir geta tekið með sér næst þegar þeir fá séns.” 

 

Hvað hefði mátt betur fara?

 

„Ég hefði alveg viljað að við hefðum fengið færri stig á okkur. Við vorum stundum kannski full kærulausir varnarlega. Full langt frá mönnunum okkar, við vissum að þeir skjóta öllu. Stundum eru þeir ekki einu sinni fríir þegar þeir skjóta en þeir eru svolítið villtir. Ég hefði stundum viljað að við værum bara nær mönnunum og myndum ekki gefa frí skot. “ 

 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira