Innlent

Hviður allt að 40 metrum á sekúndu við Kjalarnes og í efri byggðum

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Svo gæti farið að loka þurfi veginum um Hellisheiði síðdegis vegna veðurs.
Svo gæti farið að loka þurfi veginum um Hellisheiði síðdegis vegna veðurs. vísir/vilhelm
Enn er varað við slæmu veðri á höfuðborgarsvæðinu, Faxaflóa, Suðurlandi, Suðausturlandi og hálendinu.

Í gulri viðvörun Veðurstofunnar fyrir höfuðborgarsvæðið, sem tekur gildi klukkan 15 í dag, segir að það gangi í austan storm eða rok með mjög snörpum vindhviðum við Kjalarnes og í efri byggðum sem geti náð allt að 40 metrum á sekúndu.

Veðrið er varhugavert fyrir ökutæki sem taka á sig mikinn vind og þá er fólk hvatt til að ganga frá lausum munum til að forðast tjón.

Appelsínugul viðvörun tekur svo gildi á Suðurlandi klukkan 15 í dag. Þar er varað við austanstormi eða roki og jafnvel staðbundnu ofsaveðri í Austur-Landeyjum og undir Eyjafjöllum. Hviður geta náð þar allt að 45 metrum á sekúndu. Hætta er á foktjóni og ekkert ferðaveður.

Á Suðausturlandi tekur svo gul viðvörun gildi klukkan 15. Þar er spáð því að hvassast verði í Öræfum, einkum við Sandfell þar sem hviður geta verið um og yfir 40 metrar á sekúndu. Varasamt verður því að vera á ferð á ökutækjum sem taka á sig mikinn vind.

Veglokanir eru áætlaðar vegna veðursins samkvæmt vef Vegagerðarinnar:

Hellisheiði og Þrengsli: Líkleg lokun um kl. 16:00 í dag - Líkleg opnun: 01:00 e. miðnætti.

Möguleg hjáleið: Suðurstrandarvegur um Grindavík.

Hvolsvöllur – Vík: Líkleg lokun kl. 13:00 í dag. - Líkleg opnun:  kl 01:00 e. miðnætti.

Skeiðarársandur (frá Núpsstað), Öræfi og að Höfn: Líkleg lokun kl. 14.00 í dag - Líkleg opnun:  kl. 06:00 í fyrramálið (6. feb.)






Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×