Hviður allt að 40 metrum á sekúndu við Kjalarnes og í efri byggðum

Enn er varað við slæmu veðri á höfuðborgarsvæðinu, Faxaflóa, Suðurlandi, Suðausturlandi og hálendinu.
Í gulri viðvörun Veðurstofunnar fyrir höfuðborgarsvæðið, sem tekur gildi klukkan 15 í dag, segir að það gangi í austan storm eða rok með mjög snörpum vindhviðum við Kjalarnes og í efri byggðum sem geti náð allt að 40 metrum á sekúndu.
Veðrið er varhugavert fyrir ökutæki sem taka á sig mikinn vind og þá er fólk hvatt til að ganga frá lausum munum til að forðast tjón.
Appelsínugul viðvörun tekur svo gildi á Suðurlandi klukkan 15 í dag. Þar er varað við austanstormi eða roki og jafnvel staðbundnu ofsaveðri í Austur-Landeyjum og undir Eyjafjöllum. Hviður geta náð þar allt að 45 metrum á sekúndu. Hætta er á foktjóni og ekkert ferðaveður.
Á Suðausturlandi tekur svo gul viðvörun gildi klukkan 15. Þar er spáð því að hvassast verði í Öræfum, einkum við Sandfell þar sem hviður geta verið um og yfir 40 metrar á sekúndu. Varasamt verður því að vera á ferð á ökutækjum sem taka á sig mikinn vind.
Veglokanir eru áætlaðar vegna veðursins samkvæmt vef Vegagerðarinnar:
Hellisheiði og Þrengsli: Líkleg lokun um kl. 16:00 í dag - Líkleg opnun: 01:00 e. miðnætti.
Möguleg hjáleið: Suðurstrandarvegur um Grindavík.
Hvolsvöllur – Vík: Líkleg lokun kl. 13:00 í dag. - Líkleg opnun: kl 01:00 e. miðnætti.
Skeiðarársandur (frá Núpsstað), Öræfi og að Höfn: Líkleg lokun kl. 14.00 í dag - Líkleg opnun: kl. 06:00 í fyrramálið (6. feb.)
Tengdar fréttir

Ofsaveður og vegalokanir á Suðurlandi í dag
Hlánað hefur það sem af er morgni og eru því minni líkur á skafrenningi sunnantil.