Viðskipti innlent

Ólafur Darri fyllir í skarð Maríu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Ólafur Darri Andrason var deildarstjóri hagdeildar ASÍ á sínum tíma.
Ólafur Darri Andrason var deildarstjóri hagdeildar ASÍ á sínum tíma. Vísir/Vilhelm
Ólafur Darri Andrason hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri fjármálasviðs Landspítala. Frá þessu er greint á vefsíðu spítalans. Hann tekur við af Maríu Heimisdóttur sem var síðastliðið haust ráðin forstjóri Sjúkratrygginga Íslands. Settur framkvæmdastjóri fjármálasviðs frá þeim tíma hefur verið Rúnar Bjarni Jóhannsson en hann hverfur til annarra starfa hjá Landspítala þegar Ólafur Darri hefur störf.

Ólafur Darri er með BS-próf í hagfræði frá Háskóla Íslands og MS-próf í viðskiptafræði með áherslu á fjármál frá sama skóla. Hann er í tilkynningunni sagður hafa víðtæka reynslu af stjórnsýslu, stýringu umfangsmikils opinbers rekstrar og innleiðingu stórra kerfislægra breytinga, svo sem yfirfærslu grunnskólans frá ríki til sveitarfélaga og innleiðingu nýrra laga um opinber fjármál í velferðarráðuneytinu.

Ólafur Darri er nú settur ráðuneytisstjóri í heilbrigðisráðuneytinu og starfaði um þriggja ára skeið sem skrifstofustjóri á skrifstofu hagmála og fjárlaga í velferðarráðuneytinu. Áður var hann í þrettán ár deildarstjóri hagdeildar Alþýðusambands Íslands og um sex ára skeið fjármálastjóri Fræðslumiðstöðvar Reykjavíkurborgar og fjárreiðustjóri borgarinnar. Enn fremur starfaði hann um árabil í menntamálaráðuneytinu.

Fjármálasvið Landspítala hefur umsjón með fjármálum spítalans og annast reikningshald og reikningsskil hans. Sviðið heldur utan um fjárheimildir spítalans, sér um fjárstýringu og innheimtir kröfur ásamt því að hafa umsjón með gerð fjárhagsáætlunar. Einnig eru innkaup og vörustýring meðal verkefna sviðsins. Fjármálasvið safnar, greinir og miðlar upplýsingum um starfsemi og rekstur spítalans. Framkvæmdastjóri þess situr í framkvæmdastjórn og heyrir undir forstjóra. Ólafur Darri hefur störf hjá Landspítala á vormánuðum 2019.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×