Viðskipti innlent

Borgun tapaði rúmlega milljarði 

Hörður Ægisson og Helgi Vífill Júlíusson skrifar
Sæmundur Sæmundsson, framkvæmdastjóri Borgunnar.
Sæmundur Sæmundsson, framkvæmdastjóri Borgunnar.
Borgun tapaði rúmlega milljarði króna í fyrra, samkvæmt heimildum Markaðarins. Til samanburðar hagnaðist fyrirtækið um 350 milljónir króna árið 2017 og árið áður nam hagnaður af reglulegri starfsemi um 1,6 milljörðum króna. Það ár hagnaðist Borgun um 6,2 milljarða króna vegna sölu á hlut í Visa Europe.

Sæmundur Sæmundsson, framkvæmdastjóri Borgunar, vildi ekki staðfesta fjárhæðina í samtali við Markaðinn, fyrr en hluthafar hefðu verið upplýstir um gang mála. Hann segir að reksturinn gangi samkvæmt áætlun. Borgun starfi á ólíkum mörkuðum, það standi að útgáfu greiðslukorta á Íslandi og sé í færsluhirðingu á Íslandi, í Bretlandi, Króatíu, Ungverjalandi, Tékklandi og Slóvakíu. „Vöxturinn í færsluhirðingu er erlendis,“ segir hann. Markaðshlutdeildin á Íslandi sé 52 prósent.

Sæmundur segir að sex starfsmönnum hafi verið sagt upp um mánaðamótin. Fyrirtækið eigi í harðri samkeppni og þurfi að straumlínulaga reksturinn.

Fram kom í Markaðnum í síðasta mánuði að Íslandsbanki hafi ákveðið að hefja að nýju söluferli á 63,5 prósenta hlut sínum í Borgun. Alþjóðlega ráðgjafarfyrirtækið Corestar Partners annast söluna. Bankinn fékk Corestar Partners í september 2016 til ráðgjafar við að móta framtíðarstefnu um hlut sinn í Borgun.

Minnihlutaeigendur Borgunar horfa jafnframt til þess að selja hlut sinn í fyrirhuguðu söluferli. Eignarhaldsfélagið Borgun, sem er samlagsfélag í eigu meðal annars Stálskipa og Einars Sveinssonar fjárfestis, á 32,4 prósenta hlut í Borgun.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×