Skoðun

Af hverju er ég í námi?

Ingveldur Anna Sigurðardóttir og Margrét Ósk Gunnarsdóttir skrifar
Háskóli Íslands leggur gríðarlega áherslu á akademískt nám og fara flestar kennslustundir á Félagsvísindasviði eingöngu fram með hinu hefðbundna fyrirlestraformi. Slíkt gerir það að verkum að starfsnám og verkleg kennsla með gagnvirkum samskiptum á það til að verða undir í bókaflóðinu. Okkur, frambjóðendum Vöku á Félagsvísindasviði, finnst mikilvægt að á tímum hraðra tækniframfara sé háskólinn leiðandi í nýstárlegum starfs- og kennsluháttum. Vaka leggur því ríka áherslu á að brúa bilið á milli atvinnulífsins og ungs fólks sem er að ljúka námi. Með Vöku í meirihluta í Stúdentaráði munum við sjá til þess að hugað verður betur að tengslum stúdenta við atvinnulífið, við hverju þeir megi búast og hvaða tækifæri bíða þeirra að námi loknu.

Í lögfræði læra nemendur meðal annars um þinglýsingar, nauðungarsölur og erfðaskrár en margir laganemar hafa ekki hugmynd um það hvernig þessir hlutir eru framkvæmdir í raun og veru. Ein leið til þess að bæta núverandi ástand er að greiða leiðina fyrir nemendur sem hafa áhuga á starfsnámi gegn einingum. Við höfum tekið eftir því að slíkt er sérstaklega ábótavant innan Félagsvísindasviðs.

Síðastliðin ár hefur Vaka verið með formennsku í Fjármála- og atvinnulífsnefnd. Eitt stærsta kosningaloforð Vöku á síðasta ári var að halda Atvinnudaga með nýju sniði sem var gert og voru þeir haldnir nú í lok janúar með góðum árangri. Vaka þakkar þeim sem tóku þátt og vilja Vökuliðar ólmir halda áfram uppteknum hætti og bjóða upp á frekari tengingu nemenda Félagsvísindasviðs við atvinnumarkaðinn að námi loknu. Þannig getum við í sameiningu reynt að brúa það bil sem nemendur upplifa milli námsáranna og síðan fyrstu áranna á atvinnumarkaðinum.

Með því að búa til Atvinnudaga Félagsvísindasviðs, sem væri vettvangur þar sem fyrirtæki atvinnulífsins kynna þau störf sem standa nemendum sviðsins til boða að námi loknu, teljum við okkur vera stuðla að jöfnum tækifærum allra nemenda. Slíkur vettvangur væri aðgengilegur öllum nemendum sviðsins og myndi þar með stuðla að breiðara tengslaneti þeirra sem myndu nýta sér slíkt úrræði og auknum atvinnutækifærum. Við í Vöku, hagsmunafélagi stúdenta, munum stækka og styrkja vettvang þinn til þess að mynda tengsl sem munu nýtast þér til æviloka.

Höfundar skipa 1. og 2. sæti á lista Vöku á félagsvísindasviði fyrir stúdentaráðskosningar Háskóla Íslands.




Skoðun

Sjá meira


×