Viðskipti innlent

Hætta rannsókn á meintum skattaundanskotum Björns Inga

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Björn Ingi Hrafnsson.
Björn Ingi Hrafnsson. Fréttablaðið/Valli
Skattrannsóknarstjóri hefur lokið rannsókn sinni á máli Björns Inga Hrafnssonar fjölmiðlamanns. Ekki þykir tilefni til frekari aðgerða af hálfu embættisins. Björn Ingi greinir frá þessu á Facebook-síðu sinni í dag og segist fullur þakklætis yfir því að málinu sé lokið.

Eignir Björns Inga voru kyrrsettar í fyrra að kröfu sýslumanns vegna meintra skattundanskota. Skattrannsóknarstjóri hafði haft mál Björns Inga til rannsóknar um nokkurn tíma en málið sneri fyrst og fremst að viðskiptum sem hann átti í árin 2014-2017 sem eigandi fjölmiðilsins DV. 

Björn Ingi birti í dag mynd af bréfi með tilkynningu skattrannsóknarstjóra sem honum var sent í gær. Hann segir það hafa verið erfitt að sæta kæru og hafa réttarstöðu sakbornings en nú sé þakklæti sér efst í huga. Næstu skref verði svo tekin í samráði við lögmann.

„Ég mun auðvitað skoða næstu skref með lögmanni mínum, enda hafa undanfarin misseri ekki verið auðveld fyrir mig og tjónið er mikið.“



Björn Ingi á skrautlegan feril í viðskiptum að baki. Hann var stjórnarformaður Pressunnar ehf. og Vefpressunnar ehf. þegar Pressan keypti útgáfu DV og dv.is haustið 2014. Vefpressan var úrskurðuð gjaldþrota í fyrra en Björn Ingi hætti stjórnarformennsku í félaginu árið 2017. Þá var veitingastaðnum Argentínu steikhúsi, sem var í eigu Björns Inga, lokað í apríl í fyrra eftir árangurslaust fjárnmám.

Ekki náðist í Björn Inga við vinnslu fréttarinnar.


Tengdar fréttir

Björn Ingi stofnar nýjan fjölmiðil

Björn Ingi Hrafnson hefur stofnað nýjan vefmiðil sem nefnist Viljinn. Vefmiðlinum er ætlað að vera nútímalegur og borgaralega sinnaður sem hafi góða blaðamennsku að höfuðmarkmiði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×